Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Göngugötur í miðborginni um helgina

16.12.2011 - 14:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Hluti Laugavegar og Skólavörðustígs verður eingöngu fyrir gangandi vegfarendur nú um helgina, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þá verður Skólavörðustígur neðan Bergstaðastrætis lokaður bílaumferð fram yfir jól.

Lokað verður fyrir bílaumferð niður Skólavörðustíg frá Bergsstaðastræti, og niður Laugaveg frá Frakkastíg.

Breytingin er gerð í samráði við hagsmunaaðila í miðborg Reykjavíkur. Í tilkynningunni segir að sama svæði hafi verið breytt í göngugötur tímabundið síðasta sumar og hafi þeirri breytingu verið vel tekið. Í ljósi þess hafi verið ákveðið að gera slíkt hið sama nú í aðdraganda jólanna.

Margvíslegar uppákomur verða í miðborginni yfir helgina. Á ferðinni frá Ingólfstorgi upp á Hlemm verða gamlir og nýir jólasveinar, White Signal, kvartettinn Kvika, Kvennakór Hafnarfjarðar, Grýla og Raunar, Lúðrasveitin Svanur og Frænkur Grýlu.

Breytingin á umferð niður Laugaveginn verður aðeins nú um helgina, en Skólavörðustígur neðan Bergstaðastrætis verður fyrir gangandi umferð einvörðungu til 27. desember.