Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gömul ráðgáta um kúluskít hugsanlega leyst

18.07.2019 - 11:05
Mynd: wikimedia / wikimedia
Vísindamenn sem rannsaka lífríkið í Mývatni hafa nú sett fram kenningu um hvernig kúluskítur myndast. Lítið er af blábakteríu í Mývatni í ár og vatnið því óvenjutært en það gerðist síðast á 9. áratugnum. Kúluskíturinn hvarf næstum því alveg úr vatninu árið 2013 en finnst enn í litlu magni. Uppeldisskilyrði kúluskíts hafa verið rannsökuð í sumar.

Kúluskítur er fágætt kúlulaga afbrigði af grænþörungnum vatnaskúfi og þekkist aðeins á örfáum stöðum í heiminum og þar á meðal í Mývatni. Kúluskíturinn hefur verið friðaður á Íslandi frá árinu 2006 en hann hvarf hins vegar næstum alveg úr vatninu árið 2013. Ástæðan fyrir hvarfi kúluskítsins er talin vera of mikill blábakteríublómi í vatninu. Blábakteríur grugga vatnið en þá kemst sólarljós ekki niður á botninn, sem er kúluskítnum nauðsynlegt. Lítið er af blábakteríum í Mývatni í sumar og hefur hópur vísindamanna meðal annars rannsakað uppeldisskilyrði kúluskítsins sem enn finnst í vatninu, þó í litlu magni.

Myndast á klettum á botni vatnsins

Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, segir vísindamennina komna með kenningu um það hvernig kúluskíturinn myndast. Í gegnum tíðina hafi það verið ráðgáta. Hann þurfi orkuríkt umhverfi, til að mynda þéttvaxinn dúsk sem finnst aðeins í grunnu vatni. Árni segir að í gegnum tíðina hafi á nokkum stöðum í Mývatni skapast slíkt umhverfi. Þar séu klettar eða steinar á botninum sem kúluskíturinn byrji að vaxa á, svipaður mosa. Dúskarnir rifni svo af klettunum þegar þeir stækki og aldan nái tökum á þeim. Hann segir vísindamennina þó ekki vita hvort þetta sé upphafið að stóru kúlunum sem voru í Mývatni en þeir hafi enga aðra góða skýringu.

Mývatn var síðast tært á 9. áratugnum

Árni segir blábakteríurnar hluta af lífríki Mývatns en mengun og næringarefni fjölgi þeim. Verið er að vinna gegn skólpmengun í vatninu, sem gæti skilað sér í minni blábakteríublóma næstu ár. Af ástæðum sem ekki eru kunnar er lítið af blábakteríu sem stendur og vatnið því óvenjutært. Hann segir vatnið síðast  hafa verið svona tært á 9. áratugnum og þá hélst það tært í fjögur ár. Þá hafi verið mikill uppgangur og uppsveifla í lífríki vatnsins.

Þannig að það er von á því að það verði uppgangur í öllu lífríki? „Það er ómögulegt að segja, núna er hrun í öllu lífríki þar sem það vantar mý og við eigum eftir að sjá afleiðingarnar af því fyrst um sinn en svo getur verið að þetta tæra vatn núna sé upphafið að einhverju skárra.“