Gömul góð ráð koma í veg fyrir nóróveirusmit

31.10.2019 - 16:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um áttatíu starfsmenn ráðgjafafyrirtækisins KPMG hafa veikst af magapest undanfarna daga og hafa veikindin verið tilkynnt til embættis sóttvarnalæknis. Ekki tókst að greina einkennin í tæka tíð því allir voru orðnir frískir í þegar veikindin voru tilkynnt. Einkenni pestarinnar hafi þó bent til þess að um nóróveirusmit hafi verið að ræða.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að það sé þó aldrei hægt að vera viss. „Til þess að geta fengið sýni til rannsóknar þá þurfum við að geta svarað því um hvað var að ræða. Og það virðist vera erfitt að ná í sýni. Það er ágætt útaf fyrir sig að fólk skuli vera batnað. En þetta hljómar eins og nóróveira og við höfum verið að sjá fleiri hópsýkingar af völdum nóró svo mér finnst það líklegt.“

Nokkur nóróveirutilfelli hafa komið upp á síðustu dögum. Fjöldi íbúa á Hrafnistu í Hafnarfirði hefur greinst með veiruna og í síðustu viku var ungbarnaleikskólanum Ársól í Grafarvogi lokað vegna smits. Þórólfur segir að hópsmit komi reglulega upp, þó þau rati ekki öll í fjölmiðla.

„Nóróveira er þekkt af því að geta gert þetta. Hún er bráðsmitandi. Það eru einungis nokkrar veiru sem geta valdið veikindum,“ segir Þórólfur. „Það tekur stuttan tíma að veikjast – einn til tvo daga frá því að maður fær veiruna í sig – þannig að það eru alveg kjöraðstæður fyrir svona veiru, sérstaklega ef hún kemst í matvæli á einhverjum stað, að valda svona hópsýkingu.“

Spurður hvernig fólk getur reynt að koma í veg fyrir að smitast segir Þórólfur að það sé gamla góða ráðið: Þvo sér vel um hendurnar og gæta að hreinlæti. „Gæta vel að matvælum og framleiðslu á mat. Þannig getur maður komið í veg fyrir smit,“ segir hann.

Nóróveirusmit lýsir sér þannig að fólk fær óþægindi í maga, svo niðurgang og uppköst og stundum hita. Fólk jafni sig yfirleitt á nokkrum dögum en getur verið með óþægindi og leiðinlegar hægðir í eina til tvær vikur. „Lang flestir fá bara svona einkenni. En svo getur fólk með undirliggjandi vandamál og eldri borgar til dæmis fengið miklu alvarlegri sýkingu. Og það er þetta fólk sem við höfum helst áhyggjur af,“ segir Þórólfur Guðnason.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi