
Gömul einangrunarstöð verður hænsnabú
Hænsnabúið Landnámsegg hefur bráðlega starfsemi í Hrísey. Þar verða upp undir þúsund íslenskar landnámshænur en ekki eru fordæmi fyrir svo stóru búi, segir Kristinn Árnason bústjóri. Stærstu búin sem hann þekki sem séu eingöngu með íslenskar landnámshænur séu ekki með fleiri en 300 hænsn. Þetta sé því algjör frumraun í þessari starfsemi.
Mögulegt vegna þátttöku Brotthættra byggða
Í húsinu var eitt sinn einangrunarstöð fyrir svín. Þegar hún hætti starfsemi árið 2011 fór Kristinn að velta því fyrir sér hvernig hægt væri að nýta húsið. Fljótlega datt honum í hug að koma á fót hænsnabúi en það var ekki fyrr en með verkefninu Brothættum byggðum, sem hófst í Hrísey árið 2015, að eitthvað fór að gerast. Kristinn segir að ef það verkefni hefði ekki komið til hefði þetta aldrei orðið að veruleika, verkefnið hafi hjálpað þeim mjög mikið.
Lyftistöng fyrir ferðamennsku
Þá vonast hann til að búið auki aðdráttarafl Hríseyjar og stefnir á að leyfa ferðamönnum að kynna sér íslensku landnámshænuna. Fólk geti komið í húsið og séð hænurnar og þar sem þær verði líka úti sé hægt að vera með eggjaleit eða -tínslu. Hann segir að Hrísey hafi eitt sinn verið þekkt fyrir Galloway-nautin og vonast til að hænurnar verði hið nýja einkenni eyjunnar.
Á markað fyrir jól
Um páskana var settur upp sérstakur búnaður frá Þýskalandi, ætlaður fyrir frjálsar varphænur. Von er á 300 hænum á næstunni og vonast Kristinn til þess að búið verði komið í fulla starfsemi eftir ár. Stefnt er á að setja eggin á markað fyrir jól og þá verður hugsanlega hægt að kaupa þau í áskrift á Norðurlandi. Þá segir hann að þau ætli sér ekki að rugga bátnum mikið en ætli sér þó að vera „rollsinn á markaðnum“.