Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gögn þvælst hjá embættinu alltof lengi

07.02.2015 - 18:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Það kemur ekki til greina að greiða fyrir gögn um meint skattaundanskot Íslendinga erlendis með ferðatöskum af seðlum. Þetta segir fjármálaráðherra. Skattrannsóknarstjóri verði að rísa undir ábyrgð í málinu.

Embætti skattrannsóknarstjóra hefur um nokkurra mánaða skeið haft undir höndum sýnishorn af gögnum sem benda til þess að hundruð Íslendinga hafi gerst sek um skattsvik í skattaskjólum. Skattrannsóknarstjóri hefur sagt að gögnin gefi færi á að rekja slík undanskot. Embættið fékk gögnin send að utan frá aðila sem vill selja þau. Þótt nokkuð sé liðið frá því embættið fékk gögnin í hendur hefur ekki enn verið ákveðið hvort þau verða keypt.

„Það strandar svo sannarlega ekki á fjármálaráðuneytinu. Við höfum fengið upplýsingar frá skattrannsóknarstjóra um að gögn stæðu til boða og við höfum sagst mundu styðja skattrannsóknarstjóra í að sækja þau. En skattrannsóknarstjóri verður að rísa undir þeirri ábyrgð sinni að stunda skattrannsóknir og afla sér þeirra gagna og upplýsinga sem til þess þarf. Af því að sú ábyrgð verður ekki tekin af embættinu af fjármálaráðuneytinu,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. 

Eftir því sem lengra líður þar til gögnin verða keypt er líklegra að meint brot á skattalögum fyrnist. „Mér hefur þótt þetta mál vera að þvælast hjá embættinu alltof lengi og að ekki hafi allt staðist sem þaðan hefur komið. Eins og til dæmis þegar embættið færir þær upplýsingar í ráðuneytið að gögnin standi til boða fyrir tiltekna hlutfallsfjárhæð af innheimtum skatttekjum sem myndi leiða af upplýsingunum. En eitthvað allt annað kemur í ljós síðar. Og auðvitað getur það ekki komið til greina að við ætlum að fara að greiða fyrir gögn af þessum toga með ferðatöskum af seðlum til einhverra huldumanna.“