Góður gangur í vegagerð í Ingólfsfirði

07.08.2019 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Vegagerð í Ingólfsfirði gengur vel, segir Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri Vesturverks. Framkvæmdir hófust á ný upp úr miðjum síðasta mánuði eftir að hafa legið niðri frá því í lok júní vegna kærumála. Vegagerðarmenn eru nú um það bil kílómetra frá jörðinni Seljanesi.

Miklar deilur hafa staðið um vegagerðina. Breikka á fyrirliggjandi veg eða vegslóða í tólf metra breiðan veg og leggja nýjan veg sem á endanum næði upp á Ófeigsfjarðarheiði og yfir í Ísafjarðardjúp. Hluti landeigenda í Seljanesi leitar leiða til að koma í veg fyrir vegagerð á jörðinni, um það bil kílómetra frá þeim stað sem vegagerðarmenn eru komnir að. Gunnar Gaukur segist þó ekki hafa áhyggjur af því að þar verði gripið til aðgerða og kveðst fullviss um að allir fari að lögum.

Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV

Engin malarnáma er í næsta nágrenni og því þurfa vegagerðarmenn að sækja möl í veginn nokkurn spöl.

Það er dálítið langt að sækja efni en það er ekki einsdæmi í framkvæmdum, segir Gunnar Gaukur.

Vegurinn liggur framhjá friðuðum kletti á Valleyri. Gunnar Gaukur segir að þar þurfi að gera landfyllingu út í sjó til að hafa nægilega breitt pláss undir veginn. Það verði þó ekki vandamál.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi