Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Góð ráð gegn kvíða á tímum kórónaveirunnar

12.03.2020 - 22:23
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Hugleiðsla, hreyfing og samverustundir með fjölskyldu eru góð ráð til að slá á kvíða í COVID-19 faraldrinum. Sálfræðingur hjá Rauða krossinum segir að margir finni fyrir kvíða núna. Þá er gott að gera lista yfir allt það sem er skemmtilegt að gera heima við.

Vart er um annað tala þessa dagana en veiruna sem herjar víða. Fréttir af sífellt fleiri smitum vekja kvíða hjá mörgum. Það hefur starfsfólk Rauða krossins orðið vart við.

„Já, það höfum við verið og maður sér það bara mjög víða á landinu og í allri umræðu,“ segir Jóhann Thoroddsen, sálfræðingur hjá Rauða krossinum.

Jóhann segir eðlilegt að þessi nýja staða veki kvíða. 

„Kvíðinn er náttúrulega bara eitthvert varnartæki sem við höfum og hann hjálpar okkur að gera það sem við þurfum að gera,“ segir Jóhann.

Það er að fara að ráðum almannavarna. Jóhann segir að margir velti því stöðugt fyrir sér hvernig veirufaraldurinn þróist hvenær honum ljúki.

„Við höfum engin svör við þessum spurningum þannig að við erum í rauninni bara svolítið að hræða okkur sjálf með því að vera að velta því fyrir okkur. Við þurfum að vera svolítið í dag frá degi ástandi núna. Eina sem við vitum að það verður eitthvað öðruvísi þegar þetta er búið en við vitum að þetta klárast og það er kannski eitt af því góða,“ segir Jóhann.

Jóhann segir mikilvægt að reyna að lifa eðlilegu lífi.

„Við erum svona rútínufólk og eftir því sem hún er meiri því betur líður okkur.  Það að vera hérna úti í ferska loftinu, fara í göngutúra og ýmislegt annað sem margir gera, endilega halda því áfram. Endilega safnast saman það er að segja fjölskyldan inni á hverju heimili og fara svolítið yfir stöðuna. Það er svo gott að vita að við erum fleiri en einn því þessi samtenging hún veitir svo mikið öryggi,“ segir Jóhann.

Þá er gott að hlusta á rólega tónlist, lesa góðar bókmenntir, horfa á sjónvarp, grípa í handavinnu, taka til í skápum og bílskúrnum.

„Við getum líka gert lista yfir það sem okkur finnst skemmtilegt að gera heima og svo getum við byrjað að tikka við,“ segir Jóhann.

Þannig að þetta er góður tími núna til þess að iðka núvitund?

„Það hefur sjaldan verið betra tími til að iðka góða núvitund. Og ef fólk er í hugleiðsluhugleiðingum þá á það endilega að hugleiða. Það á að reyna að vera í núinu, taka eftir því sem gerist þegar það gerist,“ segir Jóhann.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir