Glottandi Trump vekur reiði

09.08.2019 - 17:31
Mynd með færslu
 Mynd: Twitter
Mynd sem Melania Trump forsetafrú Bandaríkjanna birti á Twitter af sér og Donald Trump forseta, þar sem þau brosa sínu breiðasta með barn sem varð munaðarlaust eftir skotárásina í El Paso, hefur vakið hörð viðbrögð.

Þau hjónin sóttu borgina heim á miðvikudag og komu við á spítala þar. Á myndinni setur forsetinn auk þess þumalinn upp. Barnið sem er með þeim á myndinni er tveggja mánaða gamalt og foreldrar þess, Jordan og Andre Anchondo, voru myrt í árásinni þar sem 22 létust og 26 særðust. Þau létust við að vernda barnið, sem fingurbrotnaði í árásinni.

Barnið hafði verið útskrifað af spítalanum en var sent aftur þangað að beiðni Hvíta hússins. Með forsetahjónum á myndinni var frændi þess sem er stuðningsmaður forsetans líkt og faðir þess var.

Fjölmiðlum var ekki boðið að vera við heimsóknina og aðstoðarfólk forsetans hafði sagt að markmiðið með henni væri ekki fjölmiðlaumfjöllun. Trump hitti enga þeirra átta eftirlifenda sem á spítalanum dvelja. Þrír voru enn of illa haldnir eða tala ekki ensku. Fimm afþökkuðu boð um að hitta forsetann. Að sögn lækna á spítalanum virtist forsetann skorta samkennd.

Trump nýtti tækifærið og hnýtti í heimsókninni í Beto O'Rourke, forsetaframbjóðendaefni Demókrata, sem býr í El Paso, fyrir lélega aðsókn á fjöldafundum hans og kallaði hann „klikkaðan“. O'Rourke hafði áður gagnrýnt forsetann harðlega, kallað hann rasista og að forsetinn ætti ekki að koma til borgarinnar.

Stuttu seinna deildi hann við Nan Whaley borgarstjóra Dayton í Ohio á Twitter og Sherrod Brown öldungadeildarþingmann ríkisins. Í Dayton var gerð skotárás þrettán klukkustundum eftir þá í El Paso og þar létust níu, auk árásarmannsins, og 27 særðust. Forsetinn heimsótti Dayton áður en hann fór til El Paso.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi