Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Glitnir HoldCo áfrýjar lögbannsdómnum

15.02.2018 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Glitnir HoldCo áfrýjaði í dag til Landsréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í lögbannsmálinu gegn Stundinni og Reykjavík Media. Þetta staðfestir Ólafur Eiríksson, lögmaður Glitnis, í samtali við fréttastofu. Héraðsdómur hafði fellt úr gildi lögbannið sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði á frekari fréttaflutning miðlanna upp úr gögnum innan úr gamla Glitni, sem meðal annars vörðuðu viðskipti Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði um dóminn fyrir tveimur vikum að niðurstaðan kæmi ekki á óvart – lögbannið hefði verið gríðarlegt inngrip í starfsemi frjálsra fjölmiðla.

Í dómnum var kveðið nokkuð sterkt að orði. Almenningur ætti við ákveðnar aðstæður tilkall til þess að fá upplýsingar um stjórnmálamenn sem að öllu jöfnu myndu teljast til einkamálefna.  Nægar ástæður hafi verið fyrir hendi sem réttlættu birtingu skrifanna um viðskipti Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra.

Bjarni sagði sjálfur í viðtölum vegna málsins að honum hefði fundist lögbannið út í hött og komið á einstaklega óheppilegum tímapunkti fyrir sig persónulega. 

NIðurstaða héraðsdóms var sú að Stundin hefði ekki gengið nær einkalífi Bjarna eða fjölskyldu hans en óhjákvæmilegt hafi verið í opinberri umræðu í lýðræðissamfélagi um málefni sem varði almenning. Nægar ástæður hafi verið fyrir hendi sem „réttlættu birtingu þessara skrifa.“

Það breytti ekki þessari niðurstöðu hvernig gögnin innan úr Glitni komust í hendur blaðamanna Stundarinnar né að þetta væru upplýsingar sem heyrðu undir bankaleynd.