Glæpir drepa fimmfalt fleiri en stríð

epaselect epa07616942 Police officials take off their hazmat suits at the scene of a mass shooting at the Virginia Beach Municipal Center in Virginia Beach, Virginia, USA, early 01 June 2019. According to police reports, at least 12 people were killed and four others were injured when a gunman opened fire on co-workers at a municipal building before being shot and killed by responding police officers.  EPA-EFE/CAITLIN PENNA
Lögregla á vettvangi í Virginia Beach í Bandaríkjunum, þar sem starfsmaður borgarinnar myrti 12 manns á vinnustað sínum í byrjun júní. Mynd: epa
Þau sem féllu fyrir morðingjahendi árið 2017 voru ríflega fimm sinnum fleiri en þau sem féllu í stríðsátökum sama ár, samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna um morð og manndráp um veröld víða.

Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna um eiturlyf og glæpi, UNODC, tekur saman öll fáanleg gögn um morð og manndráp á heimsvísu. Nýjasta skýrsla deildarinnar, The Global Study on Homicide 2019, kom út á mánudag. Í henni er meðal annars varpað ljósi á kynbundið ofbeldi og dráp, vígaferli glæpagengja og fleira, með það fyrir augum að efla forvarnir og aðrar aðgerðir sem fækkað geta morðum og manndrápum í heiminum, segir Yuri Fedotov, forstjóri UNODC.

464.000 morð og manndráp

Samkvæmt samantekt sérfræðinga skrifstofunnar féllu um 464.000 manns fyrir morðingjahendi árið 2017. Það ár féllu um 89.000 í svokölluðum „réttmætum drápum" á stríðssvæðum og 26.000 í hryðjuverkaárásum.

Fleiri morð - lægri morðtíðni

Þótt morðum hafi fjölgað jafnt og þétt í heiminum síðustu áratugi hefur morðtíðni engu að síður lækkað. 1992 voru 7,2 af hverjum 100.000 Jarðarbúum myrtir en 2017 voru þeir 6,1. Ástandið er hins vegar afar misjafnt eftir heimshlutum.

Mest í Ameríkum, minnst í Asíu

Í Norður- Mið- og Suður-Ameríku var morðtíðnin 17,2 af hverjum 100.000 íbúum árið 2017 og hefur ekki verið hærri síðan 1990. Morðtíðnin er þó afar ólík milli einstakra landa og hvergi hærri en í El Salvador, þar sem hún var 62,1/100.000. Lægst er morðtíðnin í Asíu, eða 2,3 morð á hverja 100.000 íbúa. Þarna á milli eru svo Afríka (13/100.000), Evrópa (3,0) og Eyjaálfa (2,8).

Karlar drepa karla - og konur

Skýrslan sýnir einnig svart á hvítu að það eru fyrst og fremst karlar sem myrða, og fyrst og fremst karlar sem eru myrtir. 91 af hverjum 100 grunuðum morðingjum var karlmaður og 81 prósent hinna myrtu voru karlar. Og ungir karlmenn, 15 - 29 ára, eru í mesta áhættuhópunum. Þessi hlutföll endurspegla vel banvænt ofbeldi í undirheimum og átök milli glæpagengja.

Þegar rýnt er í morð og dráp á mökum eða fjölskyldumeðlimum kemur annað í ljós - þar bitnar ofbeldið fyrst og fremst á konum og stúlkum.

Loks má geta þess að glæpagengi sem stunda eiturlyfjaviðskipti, mansal og vændisstarfsemi myrtu nær fimmtung þessara 464 þúsunda sem myrt voru 2017, eða nokkurn veginn jafnmarga og féllu í öllum stríðsátökum heimsins það árið. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi