Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gjörspilltir stjórnmálamenn og efnahagskreppa í Líbanon

24.11.2019 - 07:30
epa08014105 A student reacts after mother of a student burned school books, during a protest in front of the Lebanese Ministry of Education, in Beirut, Lebanon, 21 November 2019. Protests continues in Lebanon since the 17 October, as protesters aim to apply pressure on the country's political leaders over what they see as a lack of progress following the Prime minister's resignation on 29 October.  EPA-EFE/ANDRE PAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Líbanon er sökkvandi skip og landið er komið ofan í djúpa holu sem verður erfitt að komast upp úr. Svona hljóma lýsingar á ástandinu þar í landi þessa dagana. Hundruð þúsunda hafa flykkst út á götur síðustu fimm vikur til þess að mótmæla bágum efnahagi og vanhæfum gjörspilltum stjórnmálamönnum. En af hverju gerist þetta núna og hvers vegna gengur hægt að leysa málin?

„Gott kvöld. Landið er statt í risastórri holu og spurningin er hvernig komumst við upp úr henni.“ Svona hófst einn aðalfréttatími Líbanska sjónvarpsins Tele Liban í vikunni. Og það eru fleiri myndlíkingar notaðar til þess að lýsa ástandinu þessa dagana. Líbanon er sökkvandi skip, segir Nabih Berri forseti líbanska þingsins, og vísaði þar bæði til efnahagsins og stjórnmálanna. Hundruð þúsunda hafa vikum saman mótmælt á götum landsins en áður en við víkjum að stöðunni í dag skulum við líta aðeins á sögu þessa lands og reyna að átta okkur á stjórnkerfinu, sem stundum er sagt það flóknasta í heimi.

Löng og merkileg saga

Líbanon liggur meðfram Miðjarðarhafinu og hefur landamæri að bæði Sýrlandi og Ísrael. Þó að Líbanon hafi ekki orðið sjálfstætt ríki fyrr en um miðja síðustu öld þá á þetta svæði og fólkið sem þar býr sér langa sögu. Það er nefnilega við strandlengju Líbanons þar sem mátti finna einar elstu byggðir manna. Elstu merki um siðmenningu á svæðinu eru um sjö þúsund ára. Saga þess er því bæði merkileg og afar löng en við ætlum að einbeita okkur að nútímasögu landsins að þessu sinni.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Beirút, höfuðborg Líbanons, liggur við botn Miðjarðarhafs.

Líbanon er eitt þeirra ríkja sem varð til í núverandi mynd eftir Sykes-Picot samkomulagið. Það var leynilegt samkomulag sem Bretar og Frakkar gerðu sín á milli þar sem þeir skiptu hluta af landsvæði Mið-Austurlanda bróðurlega á milli sín eftir eigin hentisemi. Líbanon féll í skaut Frakka sem réðu lögum og lofum þar allt frá 1920 til ársins 1943 þegar Líbanon fékk loks sjálfstæði.

Landflæmi Líbanons er ekki ýkja mikið, um tíu þúsund ferkílómetrar. Sem þýðir að það er um það bil tíu sinnum minna en Ísland. En þar búa um sex milljónir og stór hluti fólks er á flótta. Sé miðað við hina víðfrægu höfðatölu þá hýsir Líbanon flest flóttafólk frá frá nágrannaríkinu Sýrlandi eða um milljón. Þá dvelja þar einnig nokkur hundruð þúsund palestínskra flóttamanna. Það er reyndar dálítið á reiki hvernig samsetning samfélagsins í Líbanon er, þar hefur nefnilega ekki verið tekið manntal síðan 1932. Og það tengist þessu flókna stjórnkerfi sem er við lýði í landinu. Til þess að reyna að skilja það aðeins betur er best að leita ráða hjá manni sem þekkir vel bæði land og þjóð.

„Kerfið er eiginlega bara spilling“

Héðinn Halldórsson starfar í dag sem upplýsingafulltrúi hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í Tyrklandi, á landmærunum við Sýrland. Hann bjó í Líbanon í þrjú ár, 2015 til 2018. Hann virðist ekki mjög hissa á þeirri stöðu sem er upp í dag. „Hún kemur í raun ekki á óvart. Það má kannski segja að þessi bylting eða þessi mótmæli hafi verið tímabær. Og þetta hefur kannski legið í loftinu lengi af því að almannaþjónusta hún er afskaplega slæm og spilling er alveg gríðarlega mikil. Það er í rauninni ekki hægt að segja að kerfið sé spillt, kerfið er eiginlega bara spilling og fólk sér þetta í sínu daglega lífi hvað varðar hreint vatn, hvað varðar rafmagnsveitu, hvað varðar sorphirðu,“ segir Héðinn.

Mótmælin í Líbanon hófust sautjánda október þegar stjórnvöld ákváðu að skattleggja símtöl í gegnum samfélagsmiðla. Það var dregið til baka og forsætisráðherrann boðaði breytingar en það dugði ekki til. Þetta ristir nefnilega miklu dýpra en ein lítil breyting á skattalögum. Bilið á milli fátækra og ríkra virðist aukast statt og stöðugt, nokkuð sem almenningur hefur fengið sig fullsaddan af.

Mynd með færslu
Héðinn Halldórsson.

„Og það eru alltaf sömu trúarbrotin og sama fólkið og sömu fjölskyldurnar sem eru við kjötkatlana. Þannig að þessi óánægja sem er að blossa upp núna hún er löngu, löngu tímabær og á sér rætur í því samkomulagi sem heitir Taif samkomulagið sem í rauninni batt enda á borgarastríðið 1990 sem hafði þá varað í fimmtán ár,“ segir Héðinn. Á milli hundrað og tvö hundruð þúsund manns féllu í borgarastyrjöldinni. Hún geisaði frá 1975 allt fram til 1990.

Vaxandi spenna á milli trúar- og samfélagshópa í þessu litla landi braust út í ofbeldi og hatrömmum átökum. Taif samkomulagið, sem lagði línurnar fyrir það stjórnkerfi sem er við lýði í dag var undirritað í borginni Taif í Sádi-Arabíu fimmta nóvember 1989. „Samkomulagið fól í sér að æðstu embættum þeim var skipt á milli trúarhópa samkvæmt skiptingu sem var ákveðin eftir að landið fékk sjálfstæði 1943 og þetta byggði þá á síðasta manntali sem gert var í landinu og það var 1932. Æðstu embætti þau skiptust þannig að forsetinn varð að vera kristinn forsætisráðherrann varð að vera súnní og forseti þingsins varð að vera shía.“

18 mismunandi trúarbrot

Um átján mismunandi trúarbrot er að finna í Líbanon. Æðstu embættin skiptast sem sagt milli þeirra þriggja stærstu. Kristinna Maróníta og súnní og shía múslima. Það átti að sætta deilur og átök í landinu og ýta undir friðsæla sambúð allra þessara hópa. En Héðinn segir að samkomulagið sé einnig ákveðin bölvun. „Það setti líka lok á ólgu undir niðri sem að aldrei var leyst úr. Og að mörgu leyti það sem hefði átt að vinna úr í lok stríðsins, það að koma á sáttum það var aldrei gert. Sem hefur stuðlað að ákveðinni sundrungu í landinu og það að trúarbrot eru tiltölulega aðskilin í Líbanon og það er svo undir niðri núna.“

Taif samkomulagið hefur sem sagt í raun ýtt undir aðskilnað. Alla tíð síðan hafa valdhafar nefnilega passað vel upp á það að þessu samkomulagi og kerfinu sem komið var á í kjölfar þess verði viðhaldið. „Og þetta hefur alltaf snúist svolítið mikið um tilverurétt. Að þegar þá almenningur stendur í kjörklefum og er að fara að kjósa, þá vogar þér ekki að kjósa út fyrir þitt trúarbrot eða það sem þú hefur alltaf kosið. Af því að það er svo mikið í raunni til þess að standa vörð um og af því það voru aldrei neinar almennilegar sættir sem var komið á eftir stríðið,“ segir Héðinn. 

epa08016784 Protesters show the Roman Salute as they chant the National Anthem in front of a blocked road leading to the Serail, the country's Prime Ministry, during a demonstration in Beirut, Lebanon, 22 November 2019. Lebanon celebrates the 76th anniversary of its independence with protesters marking the day by holding various events for their revindication to obtain political changes.  EPA-EFE/ANDRE PAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mótmælt hefur verið í Líbanon vikum saman.

Ein krafa mótmælenda er einmitt sú að breytingar verði gerðar á stjórnkerfinu. Konur hafa verið áberandi í mótmælunum. Þær standa nefnilega ekki aðeins frammi fyrir bágri efnahagsstöðu og spillingu heldur kerfibundinni mismunun sem er jafnvel bundin í lög. Við slógum á þráðinn til forstjóra mannréttindasamtakanna Human Rights Watch í Beirút. Hún heitir Lama Fakih og er sjálf borin og barnfædd í Líbanon. Eitt af því sem Human Rights watch beitir sér einna helst fyrir þessa dagana eru breytingar á lögum um ríkisborgararétt, segir Fakih.

Mynd með færslu
Lama Fakih er forstjóri Human Rights Watch í Beirút.

Samkvæmt gildandi lögum geti líbanskar konur, ólíkt líbönskum karlmönnum, ekki veitt erlendum mökum sínum ríkisborgararétt né heldur þeim börnum sem þær kunna að eiga með þeim. Þetta hefur mikil áhrif á líf barna þeirra segir hún, þau geti jafnvel átt hættu á að vera vísað úr landi. Í Líbanon eru einnig sérstök lög um stöðu einstaklinga. Samkvæmt þeim er konum einnig mismunað. Hjúskaparlög, lög um forsjá barna - karlmönnum er hyglað á kostnað kvenna, segir Fakih.

Og öll þessi lög byggja á trúarbrögðum og gera það að verkum að konur eru berskjaldaðar fyrir ofbeldi og sitja fastar í ofbeldissamböndum. Það kemur henni þess vegna lítið á óvart að konur séu í fararbroddi í mótmælunum í dag. Fakih segir að mótmælin séu hvorki bundin við stétt né stað. Enda finni flestir íbúar landsins fyrir bágri efnahagsstöðu. „Fólk nær einfaldlega ekki endum saman. Atvinnuleysi hefur stóraukist og fólki líður eins og það hafi engu að tapa,“ segir Fakih. Héðinn tekur í sama streng. Hann segir að þessi mótmæli séu sérstök að því leyti að öll trúarbrot virðist hafa komið sér saman um að nú sé kominn tími á breytingar. „Þetta virðist vera algjörlega lífrænt þannig séð af því að það eru allir komnir út á götu og það eru hundruð þúsunda og milljónir sem hafa mótmælt og það sem er kannski merkilegt við þetta líka er að þetta er ákveðin leiðtogalaus bylting.“

Kertaljós og barnasöngvar

Og mótmælendur láta engan bilbug á sér finna. Fyrr í vikunni kom fólk saman á Nejmeh-torgi - þar sem líbanska þingið er til húsa - og barði á potta og pönnur. Minnir óneitanlega á búsáhaldabyltinguna svokölluðu hér á Íslandi eftir hrun. Mótmælin hafa nefnilega verið áberandi friðsöm. Kertaljós og söngvar hafa komið mikið við sögu og það vakti einmitt heimsathygli á dögunum þegar hópur mótmælenda breytti snarlega um takt eftir að áhyggjufull móðir benti þeim á að rúmlega eins árs sonur hennar væri hræddur við lætin í þeim.

En þótt ekki hafi oft og ítrekað komið til átaka hafa mótmælaaðgerðir samt haft mikil áhrif á samfélagið. Bankar voru opnaðir í vikunni eftir verkföll, almenn bankastarfsemi hefur legið niðri meira og minna síðan mótmælin hófust. Skólum var víða lokað og eins hafa mótmælendur lokað mikilvægum umferðaræðum. En hvað hefur áunnist á þessum fimm vikum? Tuttugasta og níunda október tilkynnti Saad Hariri forsætisráðherra um afsögn sína. Þingið hefur ekki komið saman síðan mótmælin hófust sautjánda október. Þingfundi var frestað tólfta nóvember og svo aftur nú á þriðjudag þegar mótmælendur tóku sér stöðu á torginu við þinghúsið. Það hefur gengið afar illa að finna arftaka Hariri. Þið munið að stjórnkerfið er þannig byggt upp að það má ekki hver sem er gegna því embætti heldur verður forsætisráðherrann að vera súnní múslimi. Sem þrengir valið töluvert. 

Ríkisstjórnarmyndanir taka óratíma

Það skal því ekki undra að iðulega tekur langan tíma að mynda stjórn eftir kosningar. „Ríkisstjórnarmyndanir í Líbanon hafa alltaf tekið mánuði, ef ekki ár. Þannig að það er kannski ólíklegt að þeim takist að ráða fram úr þessu með einhverskonar stjórnarmyndun. Þannig að staðan er gríðarlega opin. Það var búið að tefla fram karli, 75 ára karli, sem er í rauninni er fulltrúi sömu auðmannastéttar og fyrrverandi forsætisráðherra,“ segir Héðinn. 

epa07012143 Lebanese Prime Minister Saad Hariri speaks to the press in front of the Special Tribunal for Lebanon after the presentation of closings arguments in the trial of four Hezbollah suspects accused of the 2005 assassination of the Lebanese Prime
Saad Hariri ræðir við fréttamenn í Haag. Mynd: EPA-EFE - ANP POOL
Saad Hariri sagði af sér embætti.

Þessi 75 ára karl sem Héðinn nefnir er Mohammad Safadi, fyrrverandi fjármálaráðherra. Hann er sá fyrsti og eini sem flokkarnir á þingi náðu að sammælast um sem arftaka Hariri. Og það er óhætt að segja að mótmælendum hafi mislíkað þessi uppástunga. Svo mjög að þeir söfnuðust saman við heimili hans síðustu helgi til þess að mótmæla. Við viljum ekki fá neinn innan úr þessu stjórnkerfi, sögðu mótmælendur. Við viljum ekki heldur fá neinn sem talar til okkar í nafni ákveðinna trúarbragða. Sem sagt krafan er að stokka upp allt kerfið. Safadi tók nafn sitt upp úr hattinum á laugardag og Michel Anoun, forseti Líbanon, hefur ekki gefið neitt upp um næstu skref. En sá sem á endanum tekur við stjórn í Líbanon, sama hver það verður, á erfitt verk fyrir höndum.

Skuldugt land sem glímir við djúpstæðan vanda

„Þarna er afskaplega slæm efnahagsstaða. Líbanon er skuldugt land, skuldugt upp fyrir haus. Hagfræðingar hafa verið að segja að þetta sé svo djúpstæður vandi sem hafi fengið að vinda svo lengi upp á sig að þetta verði einungis leyst á löngum löngum tíma og það með róttækum og sársaukafullum aðgerðum og það eitthvað sem einungis ný og sterk ríkisstjórn gæti hrundið af stað og það er það sem Líbanon ekki hefur,“ segir Héðinn. 

Ríkisstjórnin hefur sagt af sér, það gengur hvorki né rekur að mynda nýja ríkisstjórn. Kosningar myndu tæplega leysa neitt því allt stjórnkerfið byggist á skiptingu embætta milli trúarhópa og stjórnarmyndun tæki óratíma. Hvað er þá til ráða? „Það sem þyrfti að gerast, væri það að einhverskonar fjárhagsaðstoð bærist. Hvort sem það væri frá öðru ríki í héraðinu eða hvort sem það væri frá alþjóðastofnun. Og svo þarf að komast þarna að völdum, það þarf að komast sterk ríkisstjórn sem að þá endurspeglar samsetningu samfélagsins í dag. En ekki eitthvað sem var uppi á teningnum fyrir 90 árum,“ segir Héðinn. 

Vilji fólks til að borga skatta nánast enginn

Ný ríkisstjórn þyrfti að ráðast í afar óvinsælar aðgerðir til þess að reyna að koma efnahagnum í lag. En þið munið að kveikjan að mótmælunum var að ríkisstjórnin kynnti til sögunnar nýja skatta. „Þegar ríki er svo gjörspillt eins og það er í Líbanon þá er að sjálfsögðu traust á ríkinu ekkert og vilji fólks til þess að borga skatta í samneyslu er nánast enginn. Skattar eru lágir í landinu en auðvitað er það það sem til þarf ef að almannaþjónusta á að aukast, ef að sorphirða á að vera, ef að fólk á að hafa aðgang að rafmagni allan sólarhringinn og hreinu vatni þá þarf að auka skatta,“ segir Héðinn. 

Gott og vel, það þarf þá að byrja á því að fá almenning til þess að treysta stjórnmálafólki og stjórnmálum almennt. Hljómar auðvelt, eða þannig. „Það er kannski athugunarvert að það hafa komið fram flokkar og það hafa komið pólitísk öfl á seinustu árum með mjög eðlileg málefni. Um grænni borgir, um endurvinnslu í rauninni bara sambærileg mál og komu fram hjá pólitískum flokkum á norðurlöndunum til að mynda. En fólk er kannski vant því að pólitísk öfl séu frekar að berjast fyrir því að halda völdum,“ segir Héðinn. 

 

epa08014110 Students shout slogans against the government, during a protest in front of the Lebanese Ministry of Education, in Beirut, Lebanon, 21 November 2019. Protests continues in Lebanon since the 17 October, as protesters aim to apply pressure on the country's political leaders over what they see as a lack of progress following the Prime minister's resignation on 29 October.  EPA-EFE/ANDRE PAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ungt fólk og konur hafa verið áberandi í mótmælunum.

Líkt og fyrr segir hafa mótmælin í Líbanon að mestu farið friðsamlega fram. Stjórnvöld í ríkjum Mið-Austurlanda hafa oft og iðulega tekið hart á hvers kyns mótlæti, eitt nærtækasta dæmið er nágrannaríkið Sýrland. Þar hefur geisað hörmulegt stríð í næstum níu ár. Stríð sem hófst þegar hið svokallaða arabíska vor var í hámæli, stjórnvöld brugðust harkalega við mótmælum almennings sem síðar þróuðust út í langvinn átök. Þá hafa staðið yfir hatrömm mótmæli í Írak. Þar hafa á fjórða hundrað verið drepin síðan í byrjun október.

Í Líbanon hafa borist fregnir af fimm dauðsföllum. Alaa Abou Fakhr, tæplega fertugur þriggja barna faðir, er einn þeirra sem lést. Hann var skotinn til bana tólfta nóvember þegar herinn skaut á hóp mótmælenda í bænum Khalde suður af Beirút. Alaa var við mótmælin ásamt fjölskyldu sinni, óvopnaður og virðist ekki hafa sýnt af sér neina ógnandi hegðun. Þá hafa yfir hundrað verið særð eða slasast. En er hætt á því að illa fari? Ef mótmælin halda áfram og engin lausn finnst á stjórnarkreppunni? „Það er þarna neisti sem gæti þurfti lítið til að tendra til þess að koma af stað ólgu eða ofbeldi en maður vonar að svo fari ekki. En þegar ég tala við mitt fólk og mína vini og seinast í dag, þá er fólk ánægt með hvernig staða mála er í dag af því að vissulega var komið að breytingum. En hins vegar er líka ótti til staðar að þetta gæti þróast í ranga átt eða þá einhver pólitísk öfl steli byltingunni eins og svo oft gerist í stöðu eins og þessari,“ segir Héðinn.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV