„Okkur skilst að Ásgrímur Jónsson hafi verið fyrsti listamaðurinn hér á landi sem vann eingöngu að sinni list, var ekki að sinna neinu öðru starfi,“ segir Gjörningaklúbburinn um Ásgrím, en það að taka viðtal við þær Jóní og Eirúnu í Gjörningaklúbbnum er ekki svo ýkja ólíkt því að ræða við tvíhöfða manneskju. Þess vegna er orðum þeirra blandað hér saman í rituðum texta.
„Við fengum miðil til að tengja okkur við Ásgrím eftir að Listasafn Íslands bað okkur að gera verk sem tengdist honum. Í rauninni er þetta samvinna við Ásgrím því að við hittum hann á spjalli á fyrrum heimili hans í Bergstaðastræti. Miðillinn, sem við áttum fund með í gegnum Facetime, vissi ekki neitt um hvað við vorum að hugsa, en til hennar kom strax ungur drengur. Fyrst var hún ekki viss um hver væri að koma þarna í gegn en það kom mjög fljótt í ljós að þetta var Ásgrímur. Þetta gekk svona ljómandi vel. “
Ákveðinn um kvenlæga myndlist
Þær stöllur í Gjörningaklúbbnum segja að Ásgrímur hafi verið mjög beittur í sambandi við ýmis mál sem tengjast myndlist. „Hann vildi að peningaöflin væru ekki að stjórna listinni, heldur að kjarninn í henni fengi að blómstra og hann vildi meina að myndlistin byggðist kvenlægri orku.“
Ásgrímur Jónsson fæddist 4. mars 1876 í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Árið 1897 hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám við Konunglega listaháskólann á árunum1900-1903. Íslensk náttúra var aðalviðfangsefni hans og með starfi sínu lagði hann grunninn að íslenskri landslagslist. Sýn hans á náttúruna var mótuð af rómantík 19. aldar og henni var hann alla tíð trúr. Heimkominn hélt hann sýningar í Reykjavík, sýndi meðal annars fræga og risastóra Heklumynd sína árið 1909.