Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gjörningur með framliðnum meistara

Mynd: Gjörningaklúbburinn / Gjörningaklúbburinn

Gjörningur með framliðnum meistara

12.11.2019 - 15:47

Höfundar

„Við köllum þetta „miðill-miðill“, þessa aðferð að nýta okkur þjónustu miðils í gegnum Facetime og hann hefur síðan samband við framliðinn einstakling,“ segja meðlimir Gjörningaklúbbsins, þær Jóní Jónsdóttir og Eirún Sigurðardóttir. Gjörningaklúbburinn hefur nú opnað sýningu með Ásgrími Jónssyni frumkvöðli í íslenskri málaralist en hann dó árið 1958. Sýningin heitir Vatn og blóð og er vídeóinnsetning í Listasafni Íslands.

„Okkur skilst að Ásgrímur Jónsson hafi verið fyrsti listamaðurinn hér á landi sem vann eingöngu að sinni list, var ekki að sinna neinu öðru starfi,“ segir Gjörningaklúbburinn um Ásgrím, en það að taka viðtal við þær Jóní og Eirúnu í Gjörningaklúbbnum er ekki svo ýkja ólíkt því að ræða við tvíhöfða manneskju. Þess vegna er orðum þeirra blandað hér saman í rituðum texta. 

„Við fengum miðil til að tengja okkur við Ásgrím eftir að Listasafn Íslands bað okkur að gera verk sem tengdist honum. Í rauninni er þetta samvinna við Ásgrím því að við hittum hann á spjalli á fyrrum heimili hans í Bergstaðastræti. Miðillinn, sem við áttum fund með í gegnum Facetime, vissi ekki neitt um hvað við vorum að hugsa, en til hennar kom strax ungur drengur. Fyrst var hún ekki viss um hver væri að koma þarna í gegn en það kom mjög fljótt í ljós að þetta var Ásgrímur. Þetta gekk svona ljómandi vel. “

Ákveðinn um kvenlæga myndlist

Þær stöllur í Gjörningaklúbbnum segja að Ásgrímur hafi verið mjög beittur í sambandi við ýmis mál sem tengjast myndlist. „Hann vildi að peningaöflin væru ekki að stjórna listinni, heldur að kjarninn í henni fengi að blómstra og hann vildi meina að myndlistin byggðist kvenlægri orku.“

Ásgrímur Jónsson fæddist 4. mars 1876 í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Árið 1897 hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám við Konunglega listaháskólann á árunum1900-1903. Íslensk náttúra var aðalviðfangsefni hans og með starfi sínu lagði hann grunninn að íslenskri landslagslist. Sýn hans á náttúruna var mótuð af rómantík 19. aldar og henni var hann alla tíð trúr. Heimkominn hélt hann sýningar í Reykjavík, sýndi meðal annars fræga og risastóra Heklumynd sína árið 1909.  

Mynd með færslu
 Mynd: Listasafn Íslands
Hin gríðarstóra Heklumynd Ásgríms Jónssonar frá 1909 er eitt af meistaraverkum íslenskrar myndlistar.

Á slóðum Ásgríms

Ásgrímur málaði úti í náttúrunni og lagði sig sérstaklega eftir að túlka birtu landsins. Hús sitt að Bergstaðastræti 74 í Reykjavík ánafnaði hann íslensku þjóðinni auk listaverka í sinni eign. Ásgrímssafn í húsinu er nú hluti af Listasafni Íslands en í því og í umhverfi þess tóku þær Eirún og Jóní í Gjörningaklúbbnum upp verkið, auk þess sem þær heimsóttu fleiri staði sem tengjast sögu listamannsins.

Þær tóku til dæmis verkið að hluta upp á Eyrarbakka, þar sem Ásgrímur kynntist menningarstraumum þess tíma frá Kaupmannahöfn. „Hámenning þessa tíma átti sér stað í Húsinu á Eyrarbakka þar sem Ásgrímur var vikapiltur. Þar fékk hann sína fyrstu liti að gjöf,“ segja Gjörningaklúbbskonur um samverkamann sinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Gjörningaklúbburinn
Gjönrningaklúbburinn komst gott samband við Ásgrím.

„Eftir að hafa talað við Ásgrím fór verkið okkar að beinast í þá átt að fjalla um það hvað það er að vera listamaður. Hann talaði mikið um það og því má segja að verkið sé óður til sköpunarkraftsins, innsæisins og náttúrunnar. Það er líka gaman að segja frá því að hann er ekki bara þekktur fyrir olíumálverk heldur líka fyrir vatnslitamyndir sínar og hann málaði mikið svæði á landinu þangað sem við tengjumst. Hann málaði Skíðadalinn og umhverfi Hafnar í Hornafirði,“ segja þær stöllur.

Mynd með færslu
 Mynd: Gjörningaklúbburinn
Vísanir í listasöguna eru fjölmargar í innsetningunni.

„Undanfarin ár höfum við líka unnið mikið með vatnið og hugmyndina um þennan dýrmætasta vökva jarðarinnar. Við gerum það á pólitískan hátt og erum í raun kannski sendiherrar vatnsins núna í myndlistinni. Verkið snýst þess vegna mikið um vatn.“

En hafði Ásgrímur einhver sérstök skilaboð til Gjörningaklúbbsins um verkið sjálft? 

„Hann var mjög ákveðinn um margt sem snerti myndlistina en varðandi verkið sagði hann bara að við ættum að vera túrar sjálfum okkur. “

Í viðtalinu sem má heyra hér að ofan ræða þær Eirún og Jóni verkið nánar en upplýsingar um það má einnig finna á heimasíðu Listasafns Íslands. Tónlistin í innslaginu er úr verkinu sem þær Eirún og Jóní unnu með hópi listamanna. Höfundur hennar er Ólafur Björn Ólafsson.