Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gjörhugsuð og ljómandi fín ljóðabók

Mynd: Forlagið / Forlagið

Gjörhugsuð og ljómandi fín ljóðabók

16.10.2019 - 20:05

Höfundar

Önnur ljóðbók Fríðu Ísberg, Leðurjakkaveður, slær í gegn hjá gagnrýnendum Kiljunnar. Bókin sé þaulhugsuð heild og sýni að Fríða hafi vaxið sem ljóðskáld.

Guðrún Baldvinsdóttir gagnrýnandi Kiljunnar segist hafa beðið spennt eftir nýrri bók frá Fríðu Ísberg, sem gaf út smásagnasafnið Kláða í fyrra og hlaut mikið lof fyrir. Hún þurfti ekki að bíða lengi því Fríða hefur gefið út nýja ljóðabók sem nefnist Leðurjakkaveður.

Guðrún segist ekki hafa orðið fyrir vonbrigðum með bókina. „Ég er mjög hrifin af þessari bók. Mér finnst mjög skemmtilegt að sjá hvernig Fríða er að vaxa sem ljóðskáld. Hún er að fjalla þarna um hvernig við berskjöldum okkur, hvernig við búum til skjöld um okkur sem einstaklinga í samfélaginu og hvernig við getum lagskipt okkur.“ Guðrún segir að Fríða hafi lýst nútímanum einkar vel í Kláða en í Leðurjakkaveðri fari hún enn meir á dýptina. „Ég held að þessi bók muni eldast enn betur en Kláði. Þetta eru ljóð sem við getum komið aftur til og þau muni lifa mun lengur.“

Þorgeir Tryggvason segir að bókin sé gjörhugsuð sem heild. „Svo er hún líka, eins og öll ljóðskáld nútímans eru alltaf að gera, að velta fyrir sér orðum. Hún er að snúa þeim við, skoða bakhliðina á þeim og leita að aukamerkingum þeirra. Hún gerir það akkúrat rétt, þannig að það verður ekki að orðaleikjum eða einhverri fyndni en samt á ótrúlega snjallan hátt.“

Að mati Guðrúnar blasir við að Fríða ber virðingu fyrir tungumálinu og hún setji sig ekki á háan stall sem ljóðskáld. Fríða risti dýpra en mörg önnur ungskáld.