Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gjaldtökuhlið sett upp við Seljalandsfoss

25.06.2015 - 13:51
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Rangárþing eystra áformar að setja upp gjaldtökuhlið á bílaplaninu við Seljalandsfoss. Nýtt deiliskipulag fyrir svæðið hefur tafist. Samkvæmt því verða bílastæði stækkuð og færð lengra frá fossinum svo að svæðið ráði betur við mikinn fjölda ferðamanna.

Umferðaröngþveiti myndast þar á hverjum degi þar sem svæðið er búið að sprengja utan af sér. Samkvæmt deiliskipulagstillögunum verður byggð þjónustumiðstöð á svæðinu og gjald tekið fyrir að leggja bílum.

Ísólfur Gylfi Pálmason er sveitarstjóri Rangárþings: „Já við höfum líka verið að velta því heilmikið fyrir okkur. Kannski einhverskonar hlið líkt og eru á Keflavíkurflugvelli, þegar menn eru að geyma bílana sína þegar þeir fara til útlanda. Við höfum líka verið að velta fyrir okkur möguleikum á að selja inn á salerni og þess háttar. Þannig að við erum að skoða þessi mál.“

„Hvenær gætu þessar framkvæmdir hafist þarna?“

„Í raun og veru gengur þessi deiliskipulagsvinna mjög vel. Þetta er þverpólitískur hópur og líka eigendur svæðisins sem koma að þessu. Ég ímynda mér að tillögur yrðu auglýstar einhvern tímann núna með haustinu.“

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV
johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV