Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gjaldþrot blasir ekki lengur við FEB

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Búið er að ganga frá skriflegum viðaukum við kaupsamninga við 53 kaupendur íbúða í eigu Félags eldri borgara í Árskógum. Gjaldþrot blasir því ekki lengur við félaginu.

Samkvæmt upplýsingum frá Félagi eldri borgara náðist einnig að lækka byggingar- og fjármagnskostnað verkefnisins verulega og átti það einnig þátt í að forða félaginu frá gjaldþroti. 

Félagið og Ellert B. Schram, formaður þess, höfðu lýst því yfir að félagið stefndi í gjaldþrot ef ekki næðust samningar við kaupendur, eða ef kaupendur færu í mál við félagið.

Afléttu kvöðum til að koma til móts við kaupendur

Fallið var frá kvöðum sem hvíldu á íbúðunum í samningum við þá sem ganga að hærra kaupverði, líkt og formaður félagsins sagði að stæði til að gera í samtali við fréttastofu í ágúst. Með því væri verið að reyna að koma til móts við kaupendur.

Samningar hafa tekist við stærstan hluta kaupenda

Nú hafi tekist að semja við 53 kaupendur. Unnið sé að því að ganga frá skilmálabreytingum við þá síðustu. Þá á eftir að semja við níu kaupendur.

Þeir níu sem ekki er búið að semja við eiga að fá íbúðir sínar afhentar í lok mánaðar. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu vildu einhverjir þeirra hugsa málið fram að afhendingu. Þó séu engir kaupendur að íhuga að leita réttar síns að svo stöddu, svo vitað sé. 

Sex íbúðir eru enn til sölu í Árskógum sem stendur. Tvær íbúðir voru óseldar þegar deilumálið kom upp. Þá hættu fjórir við kaup, þar af tveir vegna hærra verðs. Tveimur tókst ekki að selja eigin eignir og hættu við kaup á þeim forsendum. 

Kaupendum gert að greiða hærra verð

Verð íbúða sem félagið reisti í Árskógum hækkaði þar sem kostnaður við framkvæmdirnar fór fram úr áætlun og verktakinn neitaði að afhenda lyklana að óbreyttu.  Kaupendum var sagt að annað hvort þyrftu þeir að samþykkja milljóna hækkun á kaupverði eða falla frá kaupunum.

Tveir kaupendur fóru í mál við félagið. Bæði málin enduðu með samningum. Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður annars kaupandans, sagði að skjólstæðingur hennar hefði fengið íbúðina afhenta strax í kjölfar samningsins. Trúnaður sé yfir samkomulaginu sem náðist.