Foreldrarnir tókust á við þetta tímabil með mismunandi hætti. Margir dreifðu orlofinu. Það má því kannski segja að lenging orlofs sé víða orðin að veruleika en sá sem er í orlofi er þá oft að fá um 40%-70% tekna sinna í stað 80%. Sumir unnu hlutavinnu og fengu foreldra sína eða ættingja til að passa á móti, sumir tóku launalaust leyfi, sumir fóru í fjarnám, þá var nokkuð um að fólk fengi til sín au-pair. Spegillinn heyrði frá konu sem býr í sveitarfélagi úti á landi þar sem eru engir dagforeldrar, hún segir töluvert um það að fólk þar ráði au-pair til að brúa bilið og gerir ráð fyrir að fara þá leið sjálf. Hún og hennar maki hafi ekki efni á að dreifa fæðingarorlofinu á fleiri mánuði en níu og það komi betur út að þau séu bæði á vinnumarkaði og greiði au-pair. Auðvitað henti þessi lausn ekki öllum enda ekki allir með auka herbergi, þá kæri ekki allir sig um að treysta einni manneskju fyrir barninu. Nokkur dæmi voru um að mæður hefðu þurft að segja upp starfi sínu til að vera heima með barnið og sum þeirra voru orðin tveggja og hálfs árs þegar þau komust inn á leikskóla. Foreldrar þá kannski búnir að brúa sjálfir meira en ársbil.
Fékk sér vinnu á leikskóla - þar með forgang
Sumir ákváðu að finna sér nýjan starfsvettvang í þeim tilgangi að koma barninu fyrr inn í leikskóla. „Konan mín sagði upp vinnunni og fór að vinna á leikskóla til þess að koma barninu að í gæslu að loknu 12 mánaða fæðingarorlofi. Við vorum án gríns næstum flutt úr Reykjavík,“ skrifar faðir. Börn starfsmanna á leikskólum njóta forgangs þegar tekið er inn.
Ekki allir sem telja sig hafa efni á orlofi
Tekjuskerðingin er að sögn margra foreldra í grúppunni gríðarleg og sumir segja álagið bitna á geðheilsunni. Dæmi voru um að það foreldri sem ekki var heima sæi sér ekki fært að taka orlof af fjárhagsástæðum. Einn skrifaði: „Ég væri nú meira en til í það ef orlofið væri hærra. Þetta er meira spurning um að þurfa að vinna frekar en að vilja ekki taka orlofið. Nú vona ég allavega að flestir aðrir feður séu þannig þenkjandi.“ Móðir skrifaði:
„Maðurinn minn getur ekki tekið sér fæðingarorlof vegna minnar tekjuskerðingar, en ætlar að taka 2 vikur í sumarfrí með mér í kjölfar barnsburðar. Við horfum svo fram á það, ef við verðum mjög heppin, að barnið komist að hjá dagforeldri haustið 2019. Þá eru þarna 4 mánuðir sem við þurfum að brúa, en hugsun mín nær ekki svo langt enn sem komið er og það veldur mér miklum kvíða. Au pair kemur ekki til greina á öllum heimilum. Þá spyr maður sig hvað megi leggja á aldraðar ömmur, hvort við getum farið í eitthvað víxl með sumarfrí okkar, getur maður ráðið ungling í fjölskyldunni eða farið með barnið í vinnu að einhverju leyti? Ekkert af þessu er ákjósanlegt og alls ekki allt gefið.“
Kvíðir frekari barneignum
Þá hefur kerfið eins og það er í dag áhrif á viðhorf sumra til frekari barneigna. Kona sem stefnir að því að eignast annað barn sem fyrst segir að maginn á henni fari í hnút við að hugsa um það. Þau hjónin viti ekki hvort þau geti leyft sér að eignast annað barn því aðstæður bjóði ekki upp á það.
„Maðurinn minn á ennþá 1 mánuð eftir af fæðingarorlofi sínu en við höfum ekki efni á því að nýta hann. Við höfum mikið rætt það að koma með annað barn og planið mitt var að vera orðin ófrísk aftur þegar ég útskrifast um jólin en maginn á mér fer í kvíðahnút við að hugsa um það. Ég velti því fyrir mér hvort einhver eigi eftir að vilja fá mig nýútskrifaða og ófríska inn á vinnustað og þar sem ég er launalaus í háskólanámi þá þyrfti ég að lifa á einhverjum smá styrk í fæðingarorlofinu. Við hjónin vitum hreinlega ekki hvenær við eigum að leyfa okkur að eignast annað barn því aðstæður bjóða hreinlega ekki upp það. Ef ég næ ekki að vinna í 12 mánuði að lágmarki áður en barnið fæðist þá erum við screwed, svona á lélegri íslensku.“
Safna á kostnað heilsunnar
Nokkrir þeirra sem svöruðu fyrirspurn Spegilsins sögðust vera að eða ætla að reyna að búa í haginn og safna til að komast í gegnum þetta tímabil, sumir jafnvel á kostnað heilsunnar.
„Ég og minn maður eigum von á okkar fyrsta barni i maí. Við erum bæði læknar og sjáum fram á að annað okkar verði frá vinnu alltof lengi sem bitnar á fjárhag okkar og sjúklingum. Það sem við erum að gera til að ,,undirbúa" okkur fyrir þetta tekjuleysi er að vinna ca 150-200% vinnu og leggja fyrir núna sl. mánuði. Ég er gengin 30 vikur en vinn myrkrana á milli með tilheyrandi verkjum og þreytu til þess að safna upp svo við getum borgað reikninga þegar fæðingarorlofinu lýkur. Þetta er svo langt frá því að vera í lagi. Maðurinn minn er norskur og við erum ákveðin í því að næstu börn munu fæðast og búa i Noregi. Barneignir eiga að vera gleðiefni foreldra, ekki fjárhagsáhyggjur og streita útí hið óendanlega.“
Sagði ein móðir.