Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Gistiheimili spretta upp suður með sjó

16.04.2016 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gistiheimilum á Suðurnesjum fjölgaði um 80% á síðasta ári. Fjölgun á gistinóttum skilaði 1,3 milljarði króna inn í hagkerfið á Suðurnesjum á síðasta ári. Sprenging hefur orðið í ferðaþjónustu á svæðinu og atvinnuástand batnað til muna.

Atvinnuleysi nær óþekkt

14% atvinnuleysi var á Suðurnesjum fyrir örfáum árum, en er nú 3%. Erlendir ferðamenn gista nú gjarnan í tvær til sjö nætur í stað einnar.  Færst hefur í vöxt að innlendir ferðamenn á leið úr landi sofi nóttina fyrir brottför á gistiheimili, geymi bílinn við næturstaðinn á meðan dvalið er erlendis og nýti sér ókeypis skutlþjónustu til og frá flugvelli.  

 

Mynd með færslu
Garðskagaviti og sveitarfélagið Garður. Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Garðaskagaviti

Sjö gististaðir árið 2004 – 70 í fyrra.

Þuríður Halldóra Aradóttir forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness segir að nýskráðum gistiheimilum og hótelum hafi fjölgað gríðarlega undanfarin ár.  Árið 2004 voru sjö gististaðir skráðir á Suðurnesjum, haustið 2013 voru þeir 35. Núna eru þeir 70. Nýskráðum gistiheimilum fjölgaði um 80% á síðasta ári og útlit er fyrir frekari fjölgun á þessu ári. Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Suðurnesjum og Vesturlandi á síðasta ári samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þuríður segir að langflest gistiheimilin, eða níu af hverjum tíu, séu með öll leyfi í lagi. Lögreglan á Suðurnesjum fylgist vel með og kanni reglulega hvort eigendur haldi sig innan ramma laganna.

Margfeldisáhrifin greinileg

Þuríður segir að fjölgun gististaða hafi margfeldisáhrif inn í samfélagið á Suðurnesjum. Í kjölfarið spretti upp veitingastaðir og önnur þjónusta. Hún tekur sem dæmi hótel sem opnað var í Grindavík í fyrra.  Veitingastaðir í bænum nutu mjög góðs af því og gátu haft opið á kvöldin, en höfðu áður einblínt á matsölu í hádeginu. Staðan á vinnumarkaði hafi snarbatnað á örfáum árum. 14% atvinnuleysi var á Suðurnesjum fyrir örfáum árum og var atvinnuástandið þar hið versta á landinu. Nú sé staðan breytt. Atvinnuleysi mælist 3% og í raun fái allir vinnu sem það vilja. Eftirspurnin sé mikil og slegist sé um vinnuaflið. Vinna í ferðaþjónustu sé tíðum vaktavinna og hún henti ekki öllum. Þess vegna sæki margir af höfuðborgarsvæðinu vinnu á Suðurnesjum.  

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Frá Leifsstöð

Ferðahegðun að breytast

Ferðamynstrið hjá bæði erlendum og innlendum ferðamönnum er sífellt að breytast segir Þuríður.  Algengt sé að erlendir ferðamenn, sem áður gistu gjarnan aðeins eina nótt fyrir og eftir flug, gisti nú tvær til sjö nætur. Fyrir því séu ýmsar ástæður. Hópur ferðamanna kjósi að gista utan erilsins á höfuðborgarsvæðinu og eins sé oft erfiðara að fá bókaða gistingu í Reykjavík og nágrenni, en á Suðurnesjum. Þetta skýri m.a. hvers vegna gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á Suðurnesjum og Vesturlandi á síðasta ári. Þá hefur einnig orðið breyting á ferðahegðun innlendra ferðamanna sem eru á leið úr landi. Fyrir skömmu var algengt að ferðamenn utan Reykjavíkursvæðisins, t.d. að norðan og austan,  gistu nóttina fyrir brottför á hótelum eða gistiheimilum á Suðurnesjum, en síðustu mánuði hafi sú breyting orðið að höfuðborgarbúar kjósi einnig að gista síðustu nóttina fyrir flug til útlanda skammt frá flugvellinum.

Jafndýrt að gista og að geyma bílinn við Leifsstöð

Margir hafi uppgötvað að það lengi fríið, svefninn verði betri og tími sparist þegar ekki þurfi að vakna og aka síðla nætur eða eldsnemma morguns frá Reykjavík til Keflavíkur. Þá bætist við að bílastæðagjöld við Leifsstöð hækkuðu mikið í vor og í mörgum tilfellum er jafndýrt, jafnvel ódýrara, að sofa nóttina fyrir brottför á gistiheimili, fá morgunverð og geyma bílinn við hótelið/gististaðinn á meðan dvalið er erlendis. Margir gististaðirnir bjóða síðan upp á ókeypis akstursþjónustu upp á flugvöll og til baka.  Þuríður segir að gistihúsaeigendur hafa séð tækifærin einmitt í þessu og leggi áherslu á alls kyns bílaþjónustu.

Skjáskot úr Ferðastiklum.
 Mynd: Ferðastiklur - RÚV
Lækjarvellir á Reykjanesskaga

Sprenging í bókunum

Almar Þór Sveinsson eigandi „Bed and breakfast Keflavik Airport" í Ásbrú tekur undir orð Þuríðar. Hann segir að bókanir innlendra ferðamanna hafi aukist mikið undanfarna mánuði og sérstaklega varð það áberandi eftir að tilkynnt var um hækkun bílastæðisgjalda á Leifsstöð fyrri á þessu ári. Ferðalangar noti bílastæðin við gististaðinn, sem nóg sé af, og nýti sér síðan skutlþjónustu upp á flugvöll. Hann segir að 73% nýting hafi verið á herbergjum á gististað hans í fyrra, hún var 92% í mars og nærri fullbókað sé út árið. Í mars í fyrra gistu 930 íslenskir ferðamenn hjá honum, í mars í ár voru þeir 1580.

Skúli í WOW air opnar hótel í Ásbrú

Þrjú önnur hótel eða gististaðir eru í Ásbrú. Í gær tilkynnti Skúli Mogensen fjárfestir og eigandi Wow air að félag hans TF-KEF hefði fest kaup á þremur blokkum í Ásbrú, alls 6500 fermetrum,  sem áður voru í eigu bandaríska hersins. Í tveimur þessara blokka verður rekið  lággjalda flughótel með um 100 herbergjum og hótelíbúðum. Fyrirhugað er að opna hótelið í júlí á þessu ári. Í tilkynningu segir að lögð verði áhersla á gesti sem staldri stutt við í svokölluðum „stopover“ flugum eða þá sem kjósi að enda ferðalagið sitt nálægt Keflavíkurflugvelli til að ná morgunflugi næsta dag. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Eldey

Ferðamenn farnir að forðast fjölsótta staði

Almar segist fagna nýja hótelinu, það styrki svæðið. Þá segist Almar hafa tekið eftir breytingu í ferðahegðun sumra erlendra ferðamanna, einkum þýskra og skandinavískra.  Algengara sé nú að þeir bóki hótel á Suðurnesjum til lengri tíma, leigi bíl og forðist staði þar sem ferðamannafjöldinn sé mestur, eins og á Þingvöllum, Gullfossi, Geysi og Jökulsárlóni. Þessi hópur leiti upp staði þar sem fáir ferðamenn komi.

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV