Gísli Marteinn kynnir Eurovision á ný

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir - RÚV

Gísli Marteinn kynnir Eurovision á ný

15.04.2016 - 13:27

Höfundar

Gísli Marteinn Baldursson, þáttastjórnandi á RÚV, verður þulur í útsendingu RÚV frá Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem fer fram í Stokkhólmi í maí. Gísli Marteinn tekur við af Felix Bergssyni sem hefur kynnt keppnina síðustu þrjú ár.

Gísli Marteinn var líka þulur í keppninni á árunum 2003-2005. Í tilkynningu frá dagskrárdeild RÚV kemur fram að hann hafi á dögunum verið valinn besti íslenski þulurinn í óformlegri kosningu meðal félaga í FÁSES, íslenskum aðdáendaklúbbi Söngvakeppninnar. Gísli Marteinn segir að verkefnið leggist vel í sig.

„Felix hefur staðið sig frábærlega og það verður áskorun að troða sér í glimmerskóna hans, en hann er búinn að lofa að hjálpa mér. Eurovision er alltaf skemmtileg og þótt umgjörð keppninnar hafi breyst heilmikið síðan ég gerði þetta síðast, er kjarninn auðvitað alltaf sá sami. Þessi keppni er einstök í heiminum og það er bæði gaman að elska hana og hata. Út um alla Evrópu safnast fólk saman við sjónvarpið til að horfa, tala um lögin og í vaxandi mæli peppa sitt lag á samfélagsmiðlum eða gera góðlátlegt grín að lögum annarra landa.“

Lög frá 43 löndum keppa í Eurovision í ár. Greta Salóme Stefánsdóttir keppir í annað sinn fyrir Íslands hönd, með laginu Hear Them Calling. Áður keppti hún með Jónsa, Jóni Jósep Snæbjörnssyni, í Aserbaísjan árið 2012. Lag þeirra Never Forget lenti í 20. sæti á úrslitakvöldi keppninnar.