Gísli Marteinn hættir í stjórnmálum

25.09.2013 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, ætlar að hætta störfum í borgarstjórn og tekur á ný til starfa á RÚV. Hann mun taka að sér nýjan umræðuþátt í sjónvarpi sem verður á dagskrá fyrir hádegi á sunnudögum og hefur göngu sína eftir nokkrar vikur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Páli Magnússyni útvarpsstjóra. „Gísli mun jafnframt hefja undirbúning að frekari dagskrárgerð sem líta mun dagsins ljós eftir áramót. Gísli hefur störf á næstu dögum og mun samtímis láta af störfum sem borgarfulltrúi og hætta afskiptum af stjórnmálum. Við bjóðum Gísla Martein velkominn aftur til starfa.“

Gísli Marteinn var lengi sjónvarpsmaður á RÚV. Hann var umsjónarmaður Kastljóss, sá um vinsæla spjallþætti á laugardögum og var lýsandi í útsendingum frá Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

Ekki óheppilegt

Páll Magnússon útvarpsstjóri segir ekki óheppilegt að velja þáttarstjórnanda sem hefur verið kjörinn fulltrúi stjórnmálaflokks. „Það er fyrir það fyrsta talsverður áferðarmunur, stigsmunur ef ekki eðlismunur á því hvort menn hafi verið í landsmálum eða sveitarstjórnarmálum. Það er dálítill blæbrigðamunur þar á,“ segir Páll. „Ákvörðunin um Gísla Martein ræðst auðvitað bara af því að hann er fagmaður. Hann er besti sjónvarpsmaðurinn sem við áttum kost á til að sinna þáttagerð af þessu tagi. Svo fer hann í aðra þáttagerð líka eftir áramót. Þannig að þetta verða ekki hans einu verkefni hér.“

Aðspurður hvort það að velja mann sem tengist stjórnmálaflokki jafn náið og Gísli Marteinn Sjálfstæðisflokknum verði til að auka traust fólks á RÚV og tiltrú á hlutlausri umfjöllun segir Páll: „Ég held að menn verði svo bara að dæma Gísla af verkum sínum. Hans uppruni er náttúrulega í þáttagerð af þessu tagi. Forsagan, það er að segja starfið sem hann kemur úr er öllum ljóst. Það er ekkert sem er hulið eða falið í því.“

Sveitastjórnarkosningar eru í vor. Páll segir mögulegt að Gísli reynist vanhæfur í einhverjum málum sem tengjast þeim. en það sé ekki mikið vandamál og verði leyst þegar þar að komi.