Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Giskar á að veiran sé orðin töluvert útbreidd á Íslandi

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, veðjar á að veiran sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, sé orðin töluvert útbreidd á Íslandi. Íslensk erfðagreining stefnir að því að hefja skimun fyrir nýju kórónaveirunni meðal almennings í lok þessarar viku. Fyrirtækið vinnur verkefnið undir stjórn sóttvarnalæknis. Allt veltur á því hvort fyrirtækinu tekst að útvega veirupinna svo hægt sé að taka sýni.

Landlæknisembættið bindur vonir við aðkomu ÍE

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á blaðamannafundi í gær, að samstarfið við Íslenska erfðagreiningu væri mjög mikilvægt. „Þannig að við getum fengið góða mynd af því hvort samfélagssmit er algengara en við vitum um og það mun stýra mjög mikið því til hvaða aðgerða við munum grípa. Þessi vinna er ekki alveg tilbúin að fara í gang en vonandi mun hún hefjast núna síðar í vikunni.“

Í gær voru öll skíðasvæði í Ölpunum skilgreind sem hættusvæði. Fjöldi fólks, sem síðustu daga hefur farið til vinnu og umgengist marga þarf nú að fara í sóttkví, mislanga eftir því hversu langt er síðan það kom heim. Þegar kemur að sýnatöku eru heilbrigðisyfirvöld með forgangsröðun, þannig eru dæmi um að fólki sem umgengist hefur fólk sem nú er komið í sóttkví hafi verið neitað um veirupróf.

„Það er takmörkuð afkastageta og auðvitað forgangsröðun í sýnunum en við bindum vonir við að Íslensk erfðagreining geti líka farið að mæla og þá getum við farið að taka mörg svona tilfelli,“ sagði Alma Möller, landlæknir á fundinum í dag. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Sýni rannsökuð á veirufræðideild Landspítalans.

„Búinn að hringja út um allan heim að betla pinna“

Spegillinn spurði Kára Stefánsson hvernig yrði staðið að skimuninni og hverju hún myndi skila. „Planið núna, sem gæti breyst, er að sóttvarnalæknir eða landlæknisembættið sendi út auglýsingu þar sem fólki er boðið að koma í skimun. Fólk myndi þá koma í þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna sem við erum með í turninum við Smáralindina þar sem tekið yrði úr því strok úr nefkoki og munni. Sýnið yrði síðan sent hingað í Vatnsmýrina þar sem við myndum kanna hvort í sýninu sé veira. Niðurstöðurnar yrðu sendar til sóttvarnalæknis og upp á sýklafræðideild Landspítalans.“

Eruð þið með allan búnað, þessi flóknu tæki sem eru á sýkla- og veirufræðideildinni til að meta hvort sýni sé jákvætt eða neikvætt? Hefur starfsfólk ykkar þekkingu?

„Ertu að spyrja hvort við séum að plata? Nei, sá búnaður sem er erfiðast að fá í dag er ekki þessi flókni búnaður. Það sem vantar eru þessir pinnar til þess að taka sýni úr nefholi og munni. Það er það sem við erum að bíða eftir að fá. Síðan pöntuðum við eina maskínu til þess að einangra RNA af þessum pinnum en stóra vandamálið er að fá pinnana. Ég er búinn að vera að hringja út um allan heim að betla pinna og hefur gengið heldur illa.“ 

Kári segist viss um að það væri hægt að framleiða pinnana hér ef vilji væri til þess. „Við reiknum ekki með því að geta byrjað fyrr en seinni hluta þessarar viku. Við bara sjáum til. Ég vonast til þess að við fáum þetta. Mér sýnist að sýkla- og veirufræðideildin hafi pantað 9000 pinna og þeir eigi að koma í þessari viku. Við settumst niður í gær og pöntuðum pinna líka úr annarri átt í þeirri von að önnur hvor af þessum áttum eigi pinna og geti sent okkur þá tiltölulega fljótlega.“ 

Reiknar með örtröð

Kári segir að hver sem er geti óskað eftir því að koma í skimun til Íslenskrar erfðagreiningar. Líklega dugi að taka nokkur þúsund sýni. „Ég reikna með því að það verði örtröð, það séu mjög margir sem vilja koma. Við ætlum einfaldlega ekki að velja. Þau tilfelli sem hafa verið staðfest í dag hafa að vissu leyti verið valin. Það er fólk sem hefur verið að koma frá hættusvæðum og síðan þeir sem hafa verið í snertingu við þá sem koma frá hættusvæðum. Þar hefur verið mjög einbeitt val. Afleiðingin af því er sú að það hafa fundist mjög margir í hópi þeirra fáu sem hafa verið skimaðir en gallinn á því er að það þýðir að við höfum ekki hugmynd um hver dreifingin er í samfélaginu almennt svo við ætlum að taka fólk án þess að velja í þeirri von að okkur takist þá að sýna fram á hver dreifingin er raunverulega. Sjálfur, ef mér væri þröngvað til þess að veðja, þá myndi ég giska á að hún væri komin mjög víða í samfélaginu en það er bara ágiskun, ég hef ekkert sem styður það,“ segir Kári. Hann segir að mikill fjöldi stökkbreytinga sem hafi orðið á veirunni bendi til þess að hún sé orðin mjög útbreidd víða um heim.

Fáni íslensku erfðagreiningarinnar fyrir utan hús íslenskrar erfðagreiningar.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Íslensk erfðagreining.

Raðgreining gefur miklar upplýsingar

Auk þess að greina hvort sýnin sem safnað verður frá almenningi reynast jákvæð eða neikvæð hyggst starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar raðgreina þau jákvæðu. „Þetta myndi gefa okkur tækifæri, til dæmis, til að vita hvort öll sýkingin á Íslandi sé af sama stofni eða hvort hún sé af fleiri en einum stofni. Hvort við séum bæði með þetta L-form og S-form af veirunni. Svo myndum við sjá hvernig hún stökkbreytist, hvernig hún flyst frá manni til manns. Vegna þess að þessi veira stökkbreytist frekar mikið byði þetta upp á þann möguleika að rekja smitið í gegnum stökkbreytingarnar í veirunni.“ 

Talið er að veiran hafi snemma greinst í tvö afbrigði, S-form og L-form. L-formið virðist vera algengara og skæðara. 

Kári segir að raðgreining geti gefið upplýsingar um hver smitaðist af hverjum og þannig haft áhrif á hvernig sóttkví er beitt. Þá geti raðgreining varpað ljósi á hvort COVID-19 eigi eftir að staldra við lengi. „Sú hætta er fyrir hendi að svona stökkbreytingar leiði til þess að veiran finni leið framhjá ónæmiskerfi líkamans þannig að þó svo að þú smitist af henni í dag og verðir ónæm fyrir henni eins og hún er í dag gætirðu orðið viðkvæm fyrir henni seinna á þessu ári eða á næsta ári, það er svolítil hætta á því að COVID-19 verði arftaki inflúensunnar, það verði árstíðabundin sýking af hennar völdum.“

Sóttkví gagnlaus sé veiran útbreidd

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson
Allir sem hafa verið á skíðasvæðum í Ölpunum síðastliðnar tvær vikur þurfa í sóttkví. Þetta var tilkynnt í gær.

Kári segir að komi í ljós að veiran sé orðin mjög útbreidd hér sé sóttkví gagnslaus. „Þá væri hægt að hleypa öllum þessum nautgripum út úr fjósinu, það væri bara vor. Sóttkvíin er hamlandi, hún er byrði á samfélaginu og ef veiran er komin út um allt þá er hægt að sleppa henni.“ 

Áfram þyrfti þó að hans mati að reyna að verja eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma, ekki ósvipað og í inflúensufaraldri. Hann segir vonandi hægt að búa til bóluefni, að minnsta kosti fyrir þeim stofni sem er ráðandi í dag. „Svo eru líka aðilar úti í heimi sem eru að reyna að búa til meðferð við sýkingunni þegar hún er sem verst, búa til kokteil af mótefni gegn veirunni sem hægt er að gefa þeim sem eru lasnastir. Það er ekki öll von úti þó svo að veiran kunni að vera mjög útbreidd.