„Gífurlegt spennufall“

Mynd:  / 

„Gífurlegt spennufall“

07.11.2019 - 18:33
Það hefur verið gríðarlega lærdómsríkt að starfa þarna, segir Aron Kristjánsson, þjálfari karlalandsliðs Barein í handbolta. Liðið tryggði sér sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó um síðustu helgi í fyrsta sinn.

Handknattleikssamband Asíu hélt sérstaka úrslitakeppni um sæti Asíu á leikunum og bjuggust flestir við því að fjölþjóðasveit Katar myndi tryggja sér það sæti nokkuð örugglega. Aron og hans menn frá Barein slógu Asíumeistarana hins vegar út í undanúrslitum, nokkuð sem hafði verið langþráður draumur.

Yfirstigu loksins sína mestu hindrun

„Við spiluðum bara mjög flottan leik á móti þeim og unnum þá. Og það var í fyrsta skipti sem Barein hefur unnið Katar í svona mikilvægum leik. Gífurlegt spennufall auðvitað, þar sem þetta er búið að vera svona stóra markmiðið. Ég fann það bara þegar ég tók við liðinu að stóra markmiðið var að vinna Katar. Yfirstíga þessa hindrun sem þeir voru. Og það tókst þarna,“ sagði Aron þegar RÚV ræddi við hann.

Í úrslitum um sætið á Ólympíuleikunum mætti Barein svo Suður-Kóreu og vann þar nokkuð öruggan sigur. Þetta er í fyrsta sinn sem Barein kemst á Ólympíuleika í liðsíþrótt og gleðin í landinu var eftir því.

Fann fyrir þakklæti hjá fólkinu

„Það var auðvitað gríðarleg ánægja, bæði hjá yfirvöldum og auðvitað hjá aðdáendum. Maður fann bara svona gríðarlegt þakklæti í fólkinu. Og það var verið að kalla á mann alls staðar úti á götu og manni var gefið svona talnaband að múslimskum sið, frá fólki bara úti á götu sem vildi þakka fyrir árangurinn og vinnuna. Þannig að það, maður fann bara gríðarlegt þakklæti og stolt hjá fólkinu,“ sagði Aron.

Aron hefur langar reynslu af þjálfun félags- og landsliða í Evrópu. Hann segir kúltúrinn í Miðausturlöndum talsvert frábrugðinn og hann hafi lært mikið á tíma sínum í Barein.

„Auðvitað eru það viðbrigði og það er líka svona, það er rosalega lærdómsríkt. Og að vinna í múslimsku trúnni, að verða að taka mið af þeim kröfum sem þar að sækir, varðandi að biðja þá tíma sem verið er að biðja og svo framvegis. Og bera virðingu fyrir því öllu, það er auðvitað mjög skemmtilegt og lærdómsríkt.“