Geymslur sýknaðar í héraðsdómi

05.06.2019 - 14:51
Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason - RÚV
Fyrirtækið Geymslur var í dag sýknað í Héraðsdómi Reykjavíkur af ákærum í tengslum við bruna sem var í Miðhrauni þann 5. apríl í fyrra. Um þrjá aðskilda dóma var að ræða.

Í niðurstöðu Héraðsdóms kemur fram að ágreiningur málsaðila snúi fyrst og fremst um það hvort að Geymslur og leigutakarnir hafi gert með sér húsaleigusamning eða þjónustusamning.

Stefnendur kröfðust þess að félagið Geymslur yrði dæmt til þess að greiða stefnendum um átta milljónir í skaðabætur. Auk þess var þess krafist að fyrirtækið greiddi tvær milljónir króna í miskabætur og allan málskostnað. Dóminn má lesa í heild sinni hér.

Þá verður ráðið af gögnum málsins að brunahönnun og brunavarnir í húsnæði Geymslna hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Þetta kemur meðal annars fram í minnisblaði slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa Garðabæjar sem unnið var í kjölfar brunans en þau staðfestu bæði efni minnisblaðsins fyrir dómi.

Einnig kom fram í skýrslu slökkviliðsstjórans að brunavarnir í húsnæði stefnda hefðu verið í takt við þá starfsemi sem þar fór fram og var þetta einnig staðfest í skýrslu Gunnars H. Kristjánssonar brunaverkfræðings sem kom að brunahönnun hússins.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi