Getur verið gott að syrgja fyrir opnum tjöldum

Mynd: Íris Dögg Einarsdóttir / RÚV

Getur verið gott að syrgja fyrir opnum tjöldum

17.03.2020 - 10:22

Höfundar

Söng- og leikkonan Þórunn Erna Clausen segir að það hafi verið mikilvægt fyrir sig að syrgja opinberlega en hún missti eiginmann sinn og barnsföður, Sigurjón Brink, sem varð bráðkvaddur, fyrir næstum áratug. Rætt er við Þórunni Ernu í fimmta og síðasta þætti Minningargreina á Rás 1.

Sigurjón, eða Sjonni eins og hann var iðulega kallaður, var einn vinsælasti tónlistarmaður landsins og lagið „Aftur heim” eftir hann hafði verið valið til þátttöku í Söngvakeppninni. Hann varð hins vegar bráðkvaddur á heimili sínu þann 17. janúar 2011 en Þórunn Erna ákvað í samráði við nánustu fjölskyldu að lagið myndi halda áfram í Söngvakeppninni í flutningi vina hans og félaga, en þar á meðal voru Hreimur úr Landi og sonum og Matti Matt úr Pöpunum. Það fór á endanum svo að lagið í flutningi Vina Sjonna sigraði í undankeppninni heima og komst upp úr undanriðlinum í Eistlandi, þar sem það endaði í 20. sæti á úrslitakvöldinu. 

Þórunn Erna segist oft hafa átt samræður við Sjonna eftir að hann lést, og tali jafnvel ennþá einstaka sinnum til hans. „Ég hef hrópað til hans, hvar hann sé. Ég hef öskrað nafnið hans í örvæntingu. Áður en Vinir Sjonna fóru á svið úti töluðu þeir beint til hans, sögðust vera að gera þetta fyrir hann. Þegar við komumst áfram á fyrra undankvöldinu og myndavélarnar voru komnar á okkur hleyp ég í mynd og öskra „Sjonni, Sjonni!“ Ég hef jafnvel spurt hann ráða, og dreymt hann og fengið svör við einhverju.“

Lag Sjonna fór alla leið á úrslitakvöld Eurovision í flutningi vina hans.

Þátttakan í Söngvakeppninni segir Þórunn að hafi verið mikilvægur þáttur í að halda minningu hans á lofti, en margir ráðlögðu henni frá því. „Að ég myndi ganga frá sjálfri mér. En það var eiginlega öfugt, ég veit ekki hvað hefði orðið um mig ef ég hefði ekki haft þetta.“ Það hafi hjálpað henni mikið að geta farið um Evrópu og hrópað hvað Sjonni hefði verið frábær og skilið mikið eftir sig. Það var þó mjög erfitt að koma heim frá Eurovision um miðja nótt í tómt hús, en strákarnir hennar voru þá hjá ömmu sinni. „Ég hné niður í andyrinu og hugsaði, „ég get þetta ekki“. Það var svo mikill tómleiki og eins og allt væri búið. Ég fór heim til mömmu og við ferjuðum strákana heim í sæng til að geta knúsað þá um nóttina því ég sá bara engan tilgang í þessu. Að hrópa sorgina, hvort sem það er á samfélagsmiðlum eða annars staðar, að minnast hans opinberlega var mjög dýrmætt fyrir mig. Ég held það sé rosalega jákvætt og meiri heilun í því en fólk gerir sér grein fyrir.“

Facebook var tiltölulega nýtt á Íslandi þegar Sjonni féll frá en þar hrúguðust inn kveðjur beint á vegg Sjonna strax daginn eftir að hann dó. Þórunn hafði í raun aldrei svigrúm til þess að syrgja í einrúmi, til þess var Sjonni of þekktur og andlátið of harmþrungið. En kannski hafði hún líka ekki áhuga á því að bera harm sinn í hljóði. „Ég var ekki týpan til að taka upp símann og hringja í fólk til að segjast liggja á gólfinu í fósturstellingu í sorg og biðja um hjálp. En stundum setti maður eitthvað á Facebook og þá hringdi einhver.“

Þórunn segir líka að hún hafi fengið mikinn stuðning og frá fólki sem hún þekkti lítið eða jafnvel ókunnugum. „Kannski í grænmetisborðinu í Hagkaup kom einhver til manns og faðmaði mann, og sagði frá sinni sögu af missi og hvernig hann komst út úr því.“ Stundum geti þeir sem hafi lent í svipaðri reynslu verið færari í að hjálpa eða veita huggunarorð en þeir sem séu manni nánastir. „Þegar maður missir einhvern svona snögglega, 35 ára, frá litlum börnum, þá eru sem betur fer ekki margir í kring um mann sem hafa lent í því sama. Ég fékk rosalega mikinn stuðning frá vinum og fjölskyldu, er ekki að segja það, fjölskyldan hans Sjonna, það urðu allir svo samrýmdir. En það var samt stundum erfitt að hringja í þau því þau voru að syrgja á sama hátt, og þá eru bara allir bugaðir. Þá var oft gott að geta fengið huggun frá næstum því ókunnugum.“

Og lífið heldur áfram. Þórunn er nýbökuð móðir í þriðja sinn, á átta vikna dóttur.

„Meira að segja var alveg pínu erfitt að komast að því að ég væri ólétt og skrítin tilhugsun, og erfiðar tilfinningar að takast á við að leyfa lífinu að halda áfram og leyfa sjálfri sér að njóta þess og vera glöð,” segir Þórunn. „Það er verkefni nefnilega og það er ekki auðvelt. En þegar maður áttar sig á því að það að vera hamingjusamur í dag þýðir ekki að maður hafi ekki elskað þá sem eru farnir... ég held að það sé líka eitthvað sem maður þarf að minna sig á.”

Í fimmta og síðasta þætti af Minningargreinum skoðar Anna Marsibil Clausen hvernig samfélagsmiðlar gera okkur kleift að halda áfram að minnast fólks á opinberum vettvangi hvenær sem okkur langar til þess. Þá talar hún um opinbera sorg við Þórunni Ernu Clausen og skoðar hvað framtíðin kunni að bera í skauti sér fyrir minningargreinar. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sem og eldri þætti í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Innlent

Vinir Sjonna komnir heim

Innlent

Vinir Sjonna sáttir

Innlent

Óaðfinnanlegir Vinir Sjonna

Vinir Sjonna á rauða dreglinum