Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Getur verið feikilega klókt hjá Sigmundi“

28.05.2017 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur, segir að stofnun Framfarafélagsins hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þingmanni Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, sé mjög áhugavert framtak og þetta geti verið feikilega klókt útspil hjá fyrrverandi formanni flokksins, ætli hann sér aftur í forystu. „Þarna er verið að stilla upp í einhvers konar pólitískt áhlaup,“ segir Eiríkur.

Fjölmenni var á stofnfundi Framfarafélagsins í gær en meðal þeirra sem sóttu fundinn voru Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, og þingmennirnir fyrrverandi, Vigdís Hauksdóttir og Þorsteinn Sæmundsson.

Sigmundur hefur sjálfur sagt að félagið sé ekki stofnað sem stjórnmálaflokkur. Hann hefur þó ekki farið leynt með óánægju sína varðandi formannskosningu Framsóknarflokksins á síðasta flokksþingi þar sem hann tapaði fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni. Sigmundur fagnaði því mjög þegar boðað var til nýs flokksþings en hefur ekki gefið út hvort hann ætli að bjóða sig fram sem formaður að nýju.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur, sagði í Silfrinu í dag að framtak Sigmundar væri mjög áhugavert og benti meðal annars á nafn félagsins sem ætti sér fyrirmynd hjá Fremskridts-flokkunum í Danmörku og Noregi.

Eiríkur sagði þetta geta verið „feikilega klókt“ útspil hjá Sigmundi af hann ætli sér aftur í forystu. „Hann getur skorað Sigurð Inga á hólm á flokksþinginu. Sigri hann þá er Framfarafélagið fínasta hugveita innan flokksins. Tapi Sigmundur er hann tilbúinn með tæki sem er auðveldlega hægt að breyta úr félagi í flokk. Þarna er verið að stilla upp í einhvers konar pólitískt áhlaup, hvernig svo sem því mun fram vinda. Mér finnst mjög spennandi að sjá hvað þarna gerist.“ Sigmundur fengi líka alltaf mikla athygli, miklu meira en núverandi formaður, því í kringum hann væri alltaf mikil ólga og kraftur.