Getur ekki hlustað á tónlist

Mynd: RÚV / RÚV

Getur ekki hlustað á tónlist

02.09.2019 - 12:10

Höfundar

„Sem barn átti ég við ýmsar þroskaáskoranir að stríða. Meðal annars í sambandi við tónlist. Aðrir krakkar hlustuðu á tónlist en ég bara náði þessu ekki,“ segir Jón Gnarr sem enn þann dag í dag á mjög erfitt með að hlusta á tónlist, af hvaða tegund sem er.

„Ég gerði náttúrulega tilraunir. Einhverjir sögðu að ég yrði að hlusta á einhverja plötu sem væri frábær, ég gerði það og fannst það ekki frábært,“ segir Jón í viðtali við Tengivagninn. Hann kunni hins vegar vel að meta leikrit á plötum og upplestra Þórbergs Þórðarsonar sem fyrirfundust á heimili hans í æsku. „Viðtöl við hann og bróður hans um lífið á Hala í Suðursveit í denn. Ég hreifst af því.“

Erfitt að mæta í brúðkaup

Jón segir að ástæðan sé taugaröskun í heila. „Það er til fólk sem hefur ekki ánægju af tónlist og ég hef svo sannarlega ekki ánægju af tónlist. Ég get sætt mig við hana, að ákveðnum hluta, og til að vera ekki algjörlega antí-sósíal get ég reynt að þykjast vera með. En þetta hefur sett mjög skýrt mark á líf mitt, þetta óþol á tónlist.“ Hvernig þá? „Ég á rosalega erfitt með að vera inni í rými með öðru fólki þar sem er tónlist. Það er mér eiginlega óbærilegt,“ segir Jón sem á til dæmis erfitt með að mæta á viðburði eins og brúðkaup. „Þetta verður meira og meira íþyngjandi. Ég hef farið á fjölda tónleika um ævina og gengið út af þeim nær öllum. Ég get þetta upp að einhverju marki, sem er kannski 15-20 mínútur.“

Sósusálmur Þórbergs Þórðarsonar er eitt af fáum tónverkum sem Jón hefur dálæti á.

Hann segir það litla í tónlist sem hann geti stundum tengt við séu textarnir. „Það er oft einhver setning í einhverju lagi, oft bara viðlaginu, sem grípur mig. Ekki lagið.“ Þetta kann að koma fólki á óvart þar sem Jón er hálfgildings tónlistarmaður sjálfur, hefur sungið fjölda laga fyrir til að mynda Tvíhöfða og Fóstbræður. „Ég er með ágæta söngrödd. Þetta er ákveðin tegund tónlistar sem ég hef getað haft gaman að því það er húmor í henni. Eitthvað svona ástríðupopp sem fólk er að gera meira af ástríðu en getu, hef haft nokkuð gaman að því.“

Tónlistin á milli hans og Ninu Hagen

Tónlistaróþolið háir Jóni líka við ýmsar hversdagslegar félagslegar athafnir. „Ég get ekki farið á veitingastað þar sem er verið að spila háa tónlist. Þá er ekki hægt að tala við mig og ég nýt þess ekki að borða.“ Jón segir að tilfinningin byrji sem óþægindi en vaxi svo ört yfir í vanlíðan og loks óþol. „Ég hef setið tónleika til enda og þá þarf ég alveg að anda. Þetta er svolítið eins og innilokunarkennd. Ég tel niður frá 100 aftur og aftur til að komast í gegnum þetta.“ Þetta hefur reynst honum sérstaklega erfitt því margir vinir hans eru tónlistarmenn. Hann segist hafa hitt einn annan mann sem þjáist af því sama, bandaríska grínistann Doug Stanhope.

Þá reyndist þetta skrýtna óþol sérstaklega erfiður ljár í þúfu í tilhugalífi feimins unglings, hann hafi til að mynda ekki getað búið til mixteip handa stelpum sem hann var skotinn í. „Kynnast einhverjum stelpum, þá var þetta virkilega fyrir mér. Svo hef ég aldrei getað stundað bari, þar er allt saman; skvaldur, tónlist og drukkið fólk, þrennt það sem ég á ógeðslega erfitt með.“ Hann átti hins vegar skammlíft skot í þýskri söngkonu. „Ég sá mynd af Ninu Hagen í Bravo-tímaritinu. Hún var ógeðslega sæt og töff, með sígarettu lafandi úr munnvikinu. Ég lagði mikið á mig til að komast að meiru um hana og fann plötu með henni, held það hafi verið Unbehagen. Þetta var bara hræðilegasta garg sem ég hafði á ævinni heyrt. Þarna lauk ástarsambandi okku Ninu. Tónlistin var á milli okkar.“

Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Kristján Guðjónsson ræddu við Jón Gnarr í Tengivagninum. Hægt er að hlusta á viðtalið og þáttinn í heild í spilaranum.

 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Jón Gnarr segist ætla að farga Banksy-myndinni

Innlent

Jón Gnarr leikles samtal Geirs og Davíðs

Innlent

Jón Gnarr: Fór stundum að hágráta