Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Geti ekki verið vitni í eigin máli

11.12.2018 - 22:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdastjóri Lagastofnunar HÍ segir sérstakt að líklegur gagnaðili máls sé kvaddur til skýrslutöku sem vitni. Dómari hefur á grundvelli beiðni frá lögmanni fjögurra þingmanna Miðflokksins boðað Báru Halldórsdóttur í skýrslutöku. Lögmaður þingmannanna telur að þeir hafi sætt ólöglegum njósnum og geti því krafist miskabóta.

Beiðni lögmannsins um vitnaleiðslur og öflun sönnunargagna var send Héraðsdómi Reykjavíkur þann 6. desember, þegar ekki lá fyrir hver hefði tekið samtal þingmannanna upp. Þar segir að þingmennirnir hefðu átt réttmætar væntingar til þess að samræður þeirra á barnum væru ekki teknar upp, friðhelgi sem um samræðurnar hafi átt að ríkja hafi verið rofin með refsiverðu broti. Þingmennirnir geti því krafist bóta af þeim sem beri ábyrgð. Eftir að Bára Halldórsdóttir steig fram þann 7. desember ítrekaði lögmaður fjórmenninganna beiðnina  

Dómari hefur á grundvelli beiðninnar boðað Báru í skýrslutöku og í bréfi sem henni barst frá dómstólnum í dag segir að beiðnin verði ekki skilin öðruvísi en svo að dómsmál verði höfðað á hendur henni. Friðrik Árni Friðriksson Hirst, lögmaður og framkvæmdastjóri Lagastofnunar Hí, segir beiðnina sérstaka í ljósi aðkomu Báru að málinu. Bára geti ekki verið vitni í eigin máli. 

„Þarna er um að ræða svokallað vitnamál og það er mjög skýr greinarmunur gerður á aðilaskýrslum annars vegar og vitnaskýrslum hins vegar Eins og þetta mál blasir við virðist um það að ræða að verið sé að kveða hana fyrir dóminn sem vitni þó að hún sé raunverulega aðili, sem í sjálfu sér stenst ekki.“

Ertu þá að segja að ákvörðun dómara um að kalla hana til, að hann sé þarna að misstíga sig?

„Ég myndi ekki taka svo djúpt í árinni en allavega ef litið er til dómafordæma þá er það skýrt að heimildum tólfta kafla einkamálalaga verði ekki beitt til að taka vitnaskýrslu af einhverju sem verður fyrirsjáanlega gagnaðili í dómsmáli.“ 

Óljóst er hvernig málið þróast nú, Bára getur gefið skýrslu en hún getur líka mótmælt og krafist úrskurðar um skýrslutökuna.