Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Geta skipt um nafn um leið og lögin taka gildi

26.06.2019 - 13:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eftir að lög um kynrænt sjálfræði taka gildi tekur nafnabreyting hjá Þjóðskrá einungis þrjá til fimm virka daga. Þá getur hver sem er, óháð kyni, tekið sér hvaða nafn sem er á skrá. 

Ný lög um kynrænt sjálfræði, sem samþykkt voru á Alþingi í síðustu viku, fela í sér breytingar á lögum um mannanöfn. Fellt verður út ákvæði í mannanafnalögum sem segir að stúlku skuli gefið kvenmannsnafn og dreng karlmannsnafn. Skráning nafna í nafnaskrá Þjóðskrár verður þar með ekki lengur kyngreind. Lögin hafa enn ekki tekið gildi.

Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, segir að þrátt fyrir það sé undirbúningur vegna fyrirhugaðra breytinga hafinn hjá Þjóðskrá. 

„Það felst aðallega í því að núna verður ekki gerður greinarmunur á því hvort að nafn sé kvenmansnafn eða karlmannsnafn. Ef nafn er á mannanafnaskrá þá geta allir fengið að taka það nafn upp burt séð frá því hvort um sé að ræða konu eða karl eða einstakling sem er skráður með hlutlaust kyn,“ segir Margrét. 

Fólk geti tekið sér nýtt nafn um leið og lögin verði birt. „Um leið og lögin hafa verið birt þá taka þau formlega gildi og við erum þá tilbúin með rafræn eyðublöð þar sem hægt er að sækja um breytingu, bæði á eiginnafni og einnig eftirnafni eða kenninafni.“

Margrét segir að gera megi ráð fyrir auknu álagi vegna breytinganna fyrst um sinn því ákveðinn hópur hafi beðið eftir þessum breytingum. Afgreiðslutími á nafnabreytingu er miðaður við þrjá til fimm daga. 

„Ekki mikið meira en það. Þetta er í rauninni nafn sem er til á mannanafnaskrá og ef það þarf ekki sérstakrar skoðunar við þá rennur þetta bara hratt í gegn. “