Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Geta ekki hlutast til um stjórn Eimskips

22.11.2019 - 13:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lífeyrissjóðirnir geta ekki sammælst um breytingar í stjórnum fyrirtækja, líkt og formaður VR vill að gert verði í stjórn Eimskips, segja viðmælendur fréttastofu hjá lífeyrissjóðum.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í kvöldfréttum sjónvarps í gær að það væri galin staða að Samherji stjórni Eimskipi í ljósi þess að lífeyrissjóðirnir eigi samanlagt ríflega 53 prósenta hlut í félaginu. Samherji Holding á hins vegar 27 prósenta hlut og er Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más Baldvinssonar aðaleigenda Samherja, stjórnarformaður.

Viðmælendur sem fréttastofa ræddi við í morgun segja ummæli Ragnars byggð á nokkrum misskilningi, eða oftúlkun á stöðu Samherja innan stjórnar. Vissulega hafi félagið áhrif í ljósi þess að fyrirtækið á stærsta hlutinn og fái fulltrúa í stjórn í hlutfalli við það. Það fái lífeyrissjóðirnir einnig og þess vegna sé ekki hægt að túlka það þannig að Samherji stjórni Eimskipi. 

Þá benda viðmælendur á að lífyrissjóðirnir geti ekki komið fram sem ein heild við stjórnarkjör og aðrar ákvarðanir í stjórnum fyrirtækja. Ef lífeyrissjóðirnir myndu sammælast um slíkt hjá Eimskipi hefði það gríðarleg áhrif á allan markaðinn, enda eiga sjóðirnir umtalsverða hluti í mörgum af helstu fyrirtækjum á markaði.

Ólafur Sigurðsson er framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs sem á sex prósenta hlut í Eimskipi. „Lífeyrissjóðirnir eru jafn margir og þeir eru listaðir upp í fréttinni í gær og við getum ekki sammælst um eitthvað sem ein heild. Birta tekur afstöðu til fjárfestingakosta í samræmi við okkar stefnu og í samráði við stjórn og við getum ekki sammælst um svona hluti, lífeyrissjóðir sem ein heild.“