Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gert að minnka plastpokanotkun

12.05.2015 - 18:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Umhverfisstofnun vinnur nú að því að innleiða nýja Evróputilskipun sem miðar að því að draga úr notkun á plastpokum hér á landi um 80 prósent á næstu þremur árum.

Yfirverkfræðingur Sorpu greindi frá því í fréttum um helgina að maíspokar skilji eftir sig fimmfalt stærra sótspor en venjulegur plastpoki og benti á bláu tunnuna sem góða leið til að minnka plastpokanotun 

Íslendingar nota um það bil 1.000 tonn af plastpokum á ári. Flestir þessir pokar eru urðaðir hjá Sorpu.

Plastagnir endi í lífkeðjunni
„Þar safnast þetta fyrir og brotnar ekki niður,“ segir Elva Rakel Jónsdóttir, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun. „Vatn safnast fyrir á urðunarstöðum og hamlar niðurbroti. Plast brotnar ekki niður fyrr en eftir mörg hundruð ár en þegar það gerist þá molnar það niður í litlar eindir sem að fara af stað í lífkerfinu og mikið af þessu endar úti í hafi og þar virka þær eins og segull á eiturefni. Þannig að utan á plastögnum í hafi loðir mun meira af eiturefnum heldur en að eru almennt í hafinu. Sjávarlífverur taka þessar plastagnir í sig og þær enda í lífkeðjunni.“

Eiturefnahlaðnar plastagnir hafi til að mynda fundist í brjóstamjólk í Bretlandi. „Ef að við getum komið í veg fyrir þetta með því að nota maíspoka þá er það gífurlega jákvætt,“ segir Elva. 

Íslendingar þurfi að flokka meira
Íslendingar þurfi að endurskoða pokanotkun sína frá grunni og flokka mun meir en gert er í dag til að ná markmiðum evróputilskipunarinnar.  Taka þarf ákvörðun um það hvort setja eigi bönn, hækka skatta eða setja ívilnanir,“ segir Elva. „Ýmsar leiðir en ég held að þessi hegðunarbreyting, þessi upplýsing til almennings þurfi að ganga mjög mikið fyrir og fólk þarf að sjá skynsemina í því að breyta hjá sér hegðun og skipta út plastpokum fyrir eitthvað annað.“

Þá þurfi menn að vera meðvitaðir um hvernig þeir noti maíspokann sinn og hvar og hvernig hann hafi verið framleiddur. Best er þegar þeir eru framleiddir úr aukaafurðum sem falla til í landbúnaði. „En ef að það er verið að ryðja skóga eða eitthvað slíkt þá auðvita fækkar kostum þess að nota maíspoka mikið,“ segir Elva.

Fjölnotapokar eru auðvitað langbesti kosturinn í þessum málum. Nota þarf svoleiðis poka nokkrum sinnum til þess að það borgi sig en slíkir pokar endast í fimm, tíu eða fimmtán ár, sé hann þveginn reglulega. Það má jafnvel skipta út þunnu litlu plastpokunum fyrir netapoka og ganga bara alla leið í þess, bendir Elva á. „Þannig að við viljum auðvita draga úr plastpokanotkun þar sem hún er ekki nauðsynleg.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV