Gert að hagræða á meðan vörnum er ólokið á átta stöðum

16.01.2020 - 12:34
Fyrirhugaðar snjóflóðavarnir á Seyðisfirði
 Mynd: Fyrirhugaðar varnir á Seyðisf - Úr skýrslu
Fjármagn til ofanflóðasjóðs var skorið niður um 6 milljónir milli áranna 2019 og 2020 þrátt fyrir að tekjur sjóðsins hafi heimilað aukinn hraða í framkvæmdum. Vörnum er ólokið á átta stöðum á landinu og miðað við framkvæmdaáætlun verður þeim enn ólokið á sex stöðum árið 2023. Á þessu ári innheimtir ríkið líklega um 2,7 milljarða í ofanflóðagjald en samt fær sjóðurinn aðeins rúman milljarð á fjárlögum.

Ofanflóðasjóður fær tekjur af sérstökum skatti sem húseigendur greiða samhliða skyldubrunatryggingu. Peningarnir renna beint í ríkissjóð sem skammtar fé til framkvæmda. Tekjur tengdar brunabótamati fasteigna hafa hækkað og eru talsvert meiri en gjöld. Því hleðst upp bókfærð eign á reikningi í Seðlabanka Íslands. Samkvæmt ríkisreikningi 2018 var eign sjóðsins 13,6 milljarðar. Í fyrra fékk sjóðurinn rúman milljarð í framkvæmdir á fjárlögum og átti auk þess ónotaðar rúmar 300 milljónir frá fyrra ári.

Ekki brugðist við viðvörunum

Sveitastjórnarfólk og aðrir sem koma að ofanflóðamálum hafa varað við því að nýta ekki allar tekjur ofnaflóðasjóðs í framkvæmdir. Ekki var brugðist við þeim ábendingum í fjárlagafrumvarpi þessa árs. Ofanflóðasjóður fær sex milljónum minna en í fyrra vegna almennrar hagræðingarkröfu. Það er reyndar ekki stór upphæð af eins milljarðs og 76 milljóna fjárheimild en fréttastofa hefur ekki upplýsingar um hvort fé er ónýtt frá síðasta ári.

Vörnum ólokið á Patreksfirði, Táknafirði, Bíldudal, Hnífsdal, Siglufirði, Neskaupstað, Seyðisfirði og Eskifirði

Ofanflóðasjóður greiðir 90% af vörnum og frá því að hann tók til starfa hafa varnir verið reistar eða eignir á hættusvæði keyptar í 15 byggðarlögum. Á átta stöðum er framkvæmdum enn ólokið. Á Vestfjörðum á eftir að ljúka vörnum á Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal og í Hnífsdal. Á Norðurlandi er framkvæmdum ólokið á Siglufirði. Þær hafa staðið yfir með hléum í 20 ár. Á Austfjörðum á eftir að klára varnir í Neskaupstað, á Seyðisfirði og Eskifirði.

Helstu verkefni sjóðsins á þessu ári eru að halda áfram framkvæmdum við þriðja áfanga snjóflóðavarna ofan Neskaupstaðar; í Urðarbotnum. Þeim á að ljúka á næsta ári. Einnig halda framkvæmdir áfram á Patreksfirði við Urðir, Hóla og Mýrar en þeim á að ljúka 2023.

Þensla og kreppa

Talsvert hefur verið fjallað um ofanflóðasjóð og hægagang í framkvæmdum síðustu ár, gagnrýnt að enn sé langt í land þó að vörnum hafi átt að ljúka 2010. Á ofanflóðaráðstefnu á Sigurfirði í fyrra komu fram þær skýringar að fleiri byggðarlög hafi þurft varnir en upphaflega var talið. Þá hafi framkvæmdum verið frestað ýmist vegna þenslu eða kreppu.