Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gert að framselja grunaða og brotlega Íslendinga

08.11.2019 - 12:54
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist/RÚV
Íslenska ríkið verður nú að framselja Íslendinga sem grunaðir eru um glæp eða hafa gerst brotlegir innan ríkja Evrópusambandsins, til viðkomandi ríkis, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Nýrri evrópskri handtökustilskipun, sem tók gildi nú um mánaðamótin, er meðal annars ætlað að koma í veg fyrir að brotamenn dyljist í eigin landi.

Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu hafa ríki almennt verið treg til að framselja eigin borgara hingað til en með nýju lögunum er þeim það nú skylt. Samningurinn er gagnkvæmur.

Þetta er innbyrðis skuldbinding með ákveðnum undantekningum sem tilgreindar eru í tilskipuninni. Innleiðing hennar mun leiða til meiri skilvirkni við rannsókn mála, segir á vef Stjórnarráðsins.

Hvert ríki Evrópusambandsins, ásamt Íslandi og Noregi, þurfti að samþykkja samninginn um nýju lögin. Því ferli lauk með samþykkt Ítalíu í lok sumars og tók tilskipunin gildi 1. nóvember. Ferlið við innleiðinguna hefur staðið yfir í um ellefu ár.