Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Geri ekki kröfu um málkunnáttu fyrri kynslóða

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Við getum ekki ætlast til þess að börnin tali enn eins og þegar handritin voru skrifuð eða hafi sömu málkunnáttu og fólk sem liggur í Hólavallagarði hafði,“ þetta segir Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði. Hún og Eiríkur Rognvaldsson, prófessor emerítus í sama fagi, kynntu á Skólamálaþingi Kí í dag niðurstöður nýrrar rannsóknar á stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi þar sem enskan er allt um lykjandi. Forsetinn lýsti sig andvígan málfarsfasisma á þinginu.

Netflix og Youtube-gláp

Stór hluti 3-5 ára barna horfir á enskt efni á Netflix eða Youtube, tvisvar í viku eða oftar og það er nokkuð um að börn, sem hafa íslensku að móðurmáli tali ensku sín á milli. Þetta er meðal þess sem rannsóknin leiddi í ljós. Þá kom fram að mat foreldra á íslensku- og enskukunnáttu barna sinna minnkaði eftir því sem þau eltust. Þannig töldu foreldrar yngri barna þau góð í íslensku miðað við jafnaldra á meðan foreldrum eldri barna fannst þau ekki jafn góð. Þessu var öfugt farið með enskuna. 

Ekki sambærilegt Kanaútvarpi

Þetta í fyrsta sinn sem haldbær gögn liggja fyrir um stafræn áhrif ensks máls á íslenskt. Þá gæti áhrifa enskunnar mun meira í málumhverfi barna nú en þá, til dæmismeð tilkomu snjalltækja og gagnvirka tölvuleikja. Áhrifin eru að sögn Sigríðar öðruvísi og meiri en áhrif Bandaríkjahers og Kanaútvarpsins á sínum tíma. 

Rannsóknin er gríðarstór og margir sem koma að henni. Á þinginu var verið að kynna fyrstu niðurstöður, niðurstöður netkönnunar sem gerð var meðal fólks á öllum aldri. Foreldrar yngsta hópsins, 3-5 ára barna, aðstoðuðu hann við þátttökuna. 

Íslenskan fái minna pláss

Sigríður segir að það sé  þrengt að íslenskunni, hún fái minna pláss en áður. Í fyrirlestrinum velti hún því upp hvort næg íslenska væri í málumhverfi barna á máltökuskeiði þeirra til að þau gætu tileinkað sér hana að fullu. 

Rannsakendur könnuðu líka viðhorf fólks til íslensku og í ljós kom að viðhorfin til ensku voru jákvæðari en viðhorfin til íslensku. 

Forsetinn gegn málfarsfasisma

Hvað er til ráða? Guðni Th. Jóhannesson, forseti, sagði í ræðu sinni á þinginu að það skipti máli að leika sér að tungumálinu og að foreldrar ræddu þau við börn sín, tækju til dæmis bara umræðu um hvað orðið beinlínis þýddi, svo dæmi séu nefnd. 

 „Orðaforðinn er að dragast saman, málkerfið allt er að breytast, mér er sagt að þolfall hverfi jafnvel eftir nokkra áratugi, viðtengingarhætturinn er í mikilli hættu, viðtengingarhátturinn fyrirgefiði. Svona mætti lengi telja en við ætlum að vera bjartsýn, við ætlum að vera ákveðin og mæta þessum áskorunum öllum saman en við ætlum líka ekki að stunda einhvern málfarsfasisma.“ 

Verið að senda röng skilaboð

En hvernig má stuðla að jákvæðu viðhorfi til íslenskunnar þannig að hún lifi af á stafrænni öld? „Ég veit það ekki en einhvern veginn þurfum við, í skólanum, að gera íslenskuna meira spennandi og leika sér meira með hana. Nú veit ég að kennarar leggja sig alla fram og vinna mjög gott starf. Við erum kannski dálítið mikið í því að hanka krakkana í íslenskunni. Ég man til dæmis þegar dætur mínar voru í samræmdum prófum, það fengu alltaf einhverjir tíu í stærðfræði og ensku en það fékk enginn tíu í íslensku. Það er kannski svolítið skrítið því nú er íslenskan móðurmál þessara barna og þau kunna ekkert mál betur. við erum kannski að gefa röng skilaboð með því að vera alltaf að  segja þeim að þau séu svo góð í ensku en skamma þau fyrir íslenskuna. Við þurfum kannski að horfast í augu við það að íslenskan hefur breyst og við getum ekki ætlast til þess að börnin tali enn eins og þegar handritin voru skrifuð eða hafi málkunnáttu á við þá sem fólk sem liggur í Hólavallagarði hafði, eitthvað slíkt. Okkur þykir alltaf miður þegar íslenskan breytist, viljum að hún sé eins og hún var þegar við ólumst upp en hún gerir það samt og það sýnir bara að hún er lifandi.“  

Hlýða má á viðtal Spegilsins við Sigríði í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV