Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gerðu nýjan vetrarsamning um dýpkun Landeyjahafnar

12.11.2019 - 17:27
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Björgun hf. gert samning við Vegagerðina um að dýpka Landeyjahöfn í vetur. Samningurinn tekur gildi á föstudag þegar haustdýpkun hafnarinnar lýkur. Dýpkunarsamningurinn gildir út janúar á næsta ári.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að dýpkað verði flesta daga, á meðan fært er. Höfnin hefur verið dýpkuð samkvæmt samningi í vor og haust og með samningnum er verið að bæta verulega við þá dýpkun. „Með þessu vill Vegagerðin leitast við að halda höfninni opinni fram yfir áramót sé þess nokkur kostur,“ segir í tilkynningunni.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við fréttastofu að samningurinn gangi út á greiðslur til Björgunar fyrir að vera í viðbragðsstöðu og um hversu mikið fyrirtækið fær greitt fyrir útköll.

Björgun gerir út dýpkunarskipið Dísu frá Vestmannaeyjum. Í samkomulaginu sem gert var í dag er ekki gert ráð fyrir aðkomu Björgunar í dýpkun í mars, eins og núverandi samningar gerðu ráð fyrir. „Leitað verður eftir því að fá til starfa stærra skip með öflugri búnað til þess að opna höfnina en Björgun mun svo taka við og ljúka frekari hreinsun,“ segir í tilkynningunni.