Gera ráð fyrir mikilli stækkun seiðaeldis í Tálknafirði

19.11.2019 - 17:15
Mynd með færslu
 Mynd: NN - Tálknafjarðarhreppur
Gert er ráð fyrir það að landseiðaeldi Arctic Smolt, sem er dótturfyrirtæki fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish, í botni Tálknafjarðar fjórfaldist og að byggingasvæði verði stækkað um tuttugu þúsund fermetra.

Mánuður er síðan fyrirtækið opnaði nýja seiðaeldisstöð í Tálknafirði, líkt og RÚV sagði frá. Ljóst er að fyrirtækið áformar frekari stækkun.

Fjórföld núverandi framleiðsla og tvöfalt byggingamagn

Fyrirhuguð stækkun kemur fram í skipulags- og matslýsingu fyrir breytingar á skipulagi sveitarfélagsins. gert er ráð fyrir að framleiðslumagn fari í 2000 tonn. Arctic Smolt er með framleiðsluheimild upp á þúsund tonn sem Matvælastofnun gaf út í janúar. Gert er ráð fyrir að framleiðsla fyrir 2019 nái tæpum 500 tonnum.

Í tillögunni er þá pláss fyrir tíu hús á 45 þúsund fermetrum. Það er tuttugu þúsund fermetra stækkun. Í dag hafa fjögur þessara húsa þegar risið og er húsakosturinn upp á tæpa 13 þúsund fermetra.

Fornminjar orðið fyrir raski

Í botni Tálknafjarðar er þó nokkuð af fornminjum. Minjar hafa þegar fundist á tíu stöðum og hugsanlega er þær að finna á yfir tíu stöðum til viðbótar. Þær eru allar friðaðar samkvæmt lögum. Líklegt er að minjastaðir hafi þegar orðið fyrir raski við fyrri framkvæmdir. Það veldur því að nú er framkvæmdasvæði fært til að minnka hættu á að það endurtaki sig.

Skipulagsbreytingarnar sjálfar eru háðar umhverfismati. Framkvæmdir Arctic Smolt við uppbyggingu svæðisins eru það þó ekki, samkvæmt úrskurði Skipulagsstofnunar í desember 2016.

Í lýsingunni segir einnig að Tálknafjarðarhreppur vill stuðla að uppbyggingu iðnaðarsvæða til að renna styrkari stoðum undir byggð í firðinum.

Opið er fyrir athugasemdir við skipulagslýsinguna til 2. desember. Gert er ráð fyrir að skipulagsbreytingin verði samþykkt og taki gildi í apríl á næsta ári.

Fundnar fornminjar eru merktar inn
elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi