Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gera kröfu um íslenskt hráefni í mötuneytinu

14.05.2019 - 13:07
Mynd með færslu
Hrafnagil í Eyjafjarðarsveit. Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Eyjafjarðarsveit hefur sett það skilyrði í útboði fyrir mötuneyti sveitarfélagsins að allt kjöt, fiskur og mjólkurvörur, skuli vera af íslenskum uppruna. Oddviti sveitarfélagsins óttast ekki kvartanir frá þeim sem flytja inn erlenda matvöru. Þetta sé eðlileg krafa í miðju landbúnaðarhéraði.

Nýtt útboð fyrir mötuneyti Eyjafjarðarsveitar er til næstu þriggja ára. Í mötuneytinu borða nemendur Hrafnagilsskóla en einnig starfsfólk sveitarfélagsins og aldraðir íbúar.

Allt kjöt, fiskur og mjólkurvörur skuli vera íslenskt

Í útboðinu er tekið fram að allt kjöt, allur fiskur og allar mjólkurvörur skuli vera af íslenskum uppruna að því gefnu að varan sé framleidd og fáanleg á Íslandi. Þá skuli sem hæst hlutfall af grænmeti einnig vera af íslenskum uppruna. Leitast skuli eftir því að draga úr vistspori með því að nálgast hráefni sem næst heimabyggð. Þá skuli allt meginhráefni vera upprunamerkt.

Mikilvægast að börnin fái sem allra bestan mat

„Við erum sveitarfélag þar sem aðal atvinnugreinin er landbúnaður og er okkur mjög mikilvægur,“ Segir Jón Stefánsson, oddviti Eyjafjarðarsveitar. „En það sem er náttúrulega mikilvægast í þessu er að þetta er matur fyrir börnin okkar og við erum kannski að lýsa því yfir að vil viljum bara fá sem allra bestu hráefnin og þau séu fyrst og fremst unnin á staðnum.“ 

Fleira en verð skipti þarna máli

Því eigi fleiri atriði en verð eftir að skipta máli þegar gengið verður til samninga og maturinn í mötuneytinu gæti því orðið dýrari fyrir vikið. „Það er nú bara þannig aðmennt að lægsta verð er ekkert ævinlega besta verð þegar upp er staðið,“ segir Jón.

Óttast ekki að einhverjir fari í mál út af þessu

Og Jón á ekki von á að heildsalar eða fyrirtæki sem flytja inn erlenda matvöru kvarti yfir þessum skilyrðum Eyfirðinga. Í útboðinu hafi verið tekið mið af nýjum innkaupareglum fyrir ríki og sveitarfélög sem taka eiga gildi á næstunni. „Ég á ekki von á því að þetta verði til þess að einhverjir fari í mál við okkur eða eitthvað því um líkt. Ég get bara ekki séð það fyrir mér, annað en að menn hafi leyfi til þess að setja almenn skilyrði í útboð.“  

 

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV