Gera jafnréttismat vegna styttingar leikskóladags

23.01.2020 - 18:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ítarlegt jafnréttismat verður gert á tillögu um breyttan opnunartíma í leikskólum. Borgarráð samþykkti þetta á fundi sínum í dag.

Í þeirri vinnu verður lögð áhersla á að fá fram skoðanir foreldra, sérstaklega þeirra sem eru með dvalarsamninga eftir kl. 16.30, og greina aðstæður þeirra. Þá verður leitast við að greina þann hóp foreldra sem almennt á erfitt með að mæta breyttum opnunartíma, hversu stór hann sé og hvernig samansettur. Tillagan er sett fram í samráði við stýrihóp um umbætur og skipulag leikskólastarfs.

Jafnframt felur samþykkt borgarráðs í sér mat á því hvort grípa megi til mótvægisaðgerða vegna breytinga á opnunartíma leikskóla til að vinna að auknu jafnrétti.

Að jafnréttismati loknu mun borgarráð taka tillögu um breyttan opnunartíma leikskólanna til endanlegrar meðferðar og afgreiðslu.

Meirihluti skóla- og frístundaráðs samþykkti 13. janúar að breyta opnunartíma leikskóla borgarinnar frá og með 1. apríl næstkomandi þannig að almennur opnunartími yrði frá 07.30-16.30. Með því styttist opnunartíminn um hálfa klukkustund en leikskólarnir hafa verið opnir til klukkan 17. 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV