Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Geltandi jólakveðjur og kveðja frá Stefáni skjaldböku

23.12.2019 - 19:28
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Hátt í 3.300 jólakveðjur verða lesnar í Ríkisútvarpinu í ár. Þær hafa ekki verið jafnmargar síðustu fjögur ár. Gæludýr virðast vera orðin nokkuð lunkin við að setja saman kveðjur, því inni á milli er að finna kveðjur frá meðal annars hundum og skjaldbökum.

Það er ómissandi hluti af jólastemmingunni fyrir marga að heyra jólakveðjur lesnar í Ríkisútvarpinu og það eru þulir Ríkisútvarpsins sem sjá um að koma fólki í stemminguna.

Þulirnir voru í miklu jólaskapi í lestrinum í dag.

„Já, já, já. Löngu komin í það. Það byrjaði í gærmorgun. Upptakan byrjaði bara klukkan átta í gærmorgun, lesið allan daginn og svo var byrjað í beinni klukkan nítján til miðnættis og svo í morgun klukkan sjö,“ segir Sigvaldi Júlíusson þulur. 

„Það eru hefðbundnar kveðjur og svo er líka mikið um kveðjur frá fyrirtækjum sem komast inn í samlesnar. Það eru mjög skemmtilegar kveðjur innan um, ekki allt hefðbundið. Það koma frá gæludýrum, alls konar kveðjur. Var það ekki Stefán skjaldbaka, var ekki kveðja frá honum?,“ spyr Arndís Björk Ásgeirsdóttir þulur Sigvalda. „ Jú og geltandi jólakveðjur og fleira gott,“ segir Sigvaldi.

Og hvað gerir góður þulur þá, þarf hann að gelta?

„Já, það er aðeins, taka svona voff voff,“ segir Sigvaldi.

Lestur á jóla- og nýárskveðjum hefur tíðkast frá árinu 1932. 

Og rödd þular þarf að vera silkimjúk í lestrinum.

„Mín aðferð er bara hunang og heitt te. Ég geri reyndar sjálfur meira en það. Ég fæ mér hvítlauk, engiferrót, sítrónusafa og svo hunang, það er óbrigðult,“ segir Sigvaldi.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV