Geitur héldu tónleika í Húsdýragarðinum

Mynd: RÚV / RÚV

Geitur héldu tónleika í Húsdýragarðinum

06.12.2019 - 13:57

Höfundar

Í geitahúsi Húsdýragarðsins voru mögulega haldnir óvenjulegustu tónleikar ársins þegar geitur garðsins fluttu tónlist fyrir gesti. Tónleikarnir voru hluti af meistaranámi í hönnun við Listaháskóla Íslands.

Geiturnar léku tónlist á svonefnda Wave-hringi sem komið hafði verið fyrir á hornum geitanna. Wave-hringurinn er hannaður af hönnunarteyminu Genki Instruments og hlaut á dögunum Íslensku hönnunarverðlaunin. Hringurinn gerir notandanum kleift að stjórna hljóði með handahreyfingu – eða í þessu tilfelli höfuðhreyfingu. Jón Helgi Hólmgeirsson er hluti af Genki Instruments en hann kennir líka á meistarastigi við Listaháskóla Íslands.  

„Þetta er kúrs sem nefnist „Applied“ á öðru ári í meistaranámi hönnunardeildar LHÍ. Þessa önnina hafa nemendur verið að velta upp spurningum um hvernig dýr geta stjórnað umhverfi sínu með hreyfingu með aðstoð tækni. Og þau vildu prófa að nota Wave-hringina til að hjálpa geitunum að halda tónleika. Á tónleikunum er mennskur hljóðmaður en að öðru leyti flytja þær tónlistina. Maður náttúrulega horfir á þetta sem byrjunarpunkt fyrir hreyfitækni, hvað getur hún þýtt fyrir dýr ef þau fá tækifæri til að stýra umhverfinu í kringum sig.“   

Garðar Eyjólfsson er fagstjóri meistarnáms í hönnun við LHÍ. 

„Ég myndi segja að við séum að skoða þrjá stólpa í þessu meistaranámi: umhverfi, komandi tækni og kraft ímyndunaraflsins. Við erum að reyna að fanga ákveðna árekstra og setjum oft fram verk sem þrýsta okkur fram siðferðislega eða búa til núning við iðnað eða hugmyndir um umhverfi. Ég held að þetta sé gott dæmi um hvernig við séum að myndgera vinnuna okkar í meistaranáminu.“  

Tekið var við frjálsum framlögum á tónleikunum en geiturnar eru að safna sér fyrir klifurgrind þar sem frekar lítið er við að vera fyrir þær í geitahúsinu.    

„Mér fannst þetta mjög gott, fyrsta giggið þeirra og jafnvel fyrsta af mörgum. “

Menningin leit á geitatónleika. Horfa má á innslagið hér að ofan.  

Tengdar fréttir

Hönnun

Genki Instruments fær Hönnunarverðlaun Íslands

Myndlist

Ef það er á HönnunarMars, þá er það hönnun

Pistlar

Særandi hönnunarflíkur

Myndlist

Fáránleikinn stundum besti sögumaðurinn