Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Geitarhirðirinn stökkti brennuvörgum á flótta

26.12.2017 - 12:55
Mynd með færslu
 Mynd: IKEA - Facebook
Jólageit IKEA tórir enn, í fyrsta sinn í nokkur ár sem hún hefur ekki orðið eldi að bráð. Það sætir tíðindum að komið sé fram á annan í jólum og geitin enn heil en þýðir samt ekki að hún sé óhult. Um miðjan mánuð stökkti öryggisvörður þremur ungum piltum á flótta sem nálguðust hana eftir að hafa lagt bíl við bensínstöð Costco síðla kvölds. Ökumaður beið í flóttabílnum og tókst að bruna burt með hópinn án þess að vörðurinn næði bílnúmerinu, segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA.

„Já, það er búið að reyna að kveikja í henni – við náðum að stoppa það,“ segir Þórarinn. „Þetta voru ungir strákar. Þeir voru þrír að læðupokast í átt að bílnum og fengu svo taugaáfall þegar þeir sáu gæslubílinn,“ segir Þórarinn.

Dularfullur maður situr um geitina nótt eftir nótt

Geitin reis fyrst í smærri útgáfu jólin 2010 og var þá brennd á Þorláksmessu. Árið 2012 var hún aftur brennd, 2014 kveikti hún í sér sjálf út frá rafmagni og undanfarin tvö ár hefur hún orðið fórnargeit skemmdarvarga sem lögðu að henni eld þrátt fyrir að hún væri innan rafmagnsgirðingar og fylgst með henni um öryggismyndavél. Í ár var bætt í gæsluna – nú situr vörður í bíl við hlið hennar allar nætur.

„Fólk hefur verið að halda því fram að þetta sé bara auglýsingatrix hjá okkur, að brenna geitina, en það er alls ekki. Þetta kostar milljónir – það eru meðal annars fimm þúsund ljós á henni. Við viljum akkúrat ekki að hún sé brennd, þetta er flott skraut. Við erum að sýna það í verki með því að vera með þessa auknu gæslu,“ segir Þórarinn.

Þórarinn segir að fyrir utan strákana sem flúðu af hólmi hafi sést til manns á svörtum Cherokee-jeppa sem hefur ítrekað lagt bíl sínum á stæðinu við bensínstöð Costco um miðja nótt og dvalið þar klukkustundum saman, nógu langt frá öryggismyndavél IKEA til að bílnúmerið sjáist ekki. „Hvort hann er að bíða eftir tækifæri til að kveikja í eða hvort hann er bara þarna til að dást að geitinni skal ég ekki segja,“ segir Þórarinn.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV