Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Geislavirkni eftir sprengingu í Rússlandi

13.08.2019 - 12:09
Mynd með færslu
Gervihnattarmynd af Nyonoksa. Mynd: Twitter
Geislavirkni í nágrenni rússneskrar vopnarannsóknarstöðvar mældist allt að því 16 sinnum meiri en vanalega eftir sprengingu sem varð þar á fimmtudag. Fimm vísindamenn kjarnorkustofnunar landsins létust í sprengingunni og fjöldi var fluttur á sjúkrahús.

Geislavirknin mældist í bænum Severodvinsk, sem er í um 30 kílómetra fjarlægð frá Nyonoksa rannsóknarstöðinni. Á sex af átta stöðum í bænum þar sem geislavirkni er mæld var gammageislun fjórum til sextán sinnum meiri en vanalegt er. Geislavirknin er fór þó ekki yfir hættumörk og komst aftur í eðlilegt horf um þremur tímum eftir sprenginguna.

Að sögn kjarnorkustofnunarinnar Rosatom sprakk flugskeyti knúið kjarnorku er því var skotið á loft og lenti brak í sjó við skotpall þess. Bandaríkjamenn segja að fram hafi farið prófanir á 9M730 Burevestnik flugskeytinu sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti opinberaði fyrr á árinu.

Talsmaður hans hefur ekki viljað staðfesta að sprengingin tengist prófunum á flugskeytinu. Hann segir Rússa hafa náð miklum árangri í þróun kjarnaknúinna flugskeyta og standi öðrum þjóðum framar hvað hana varðar.

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir atvikið veita mikilvæga innsýn í vopnaþróun Rússa sem sé á háu stigi en engu að síður búi Bandaríkin yfir mun öflugri og þróaðri vopnum.