Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Geir verður sendiherra í Washington

29.09.2014 - 21:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, verður sendiherra Íslands í Washington frá og með næstu áramótum.

Bandarísk stjórnvöld hafa samþykkt Geir sem sendiherra og tekur hann við af Guðmundi Árna Stefánssyni sem verið hefur sendiherra í Washington frá 2011.

Utanríkisráðherra tilkynnti í sumar að Geir og Árni Þór Sigurðsson, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, yrðu skipaðir sendiherrar. Enn mun þó ekki liggja fyrir hvert Árni Þór fer.

Geir var forsætisráðherra frá 2006 til loka janúar 2009 þegar slitnaði uppúr ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksin og Samfylkingarinnar og hætti skömmu síðar afskiptum af stjórnmálum. Hann var áður utanríkisráðherra 2005-2006 og fjármálaráðherra 1998-2005.

Eftir að Geir hætti í stjórnmálum var hann dreginn fyrir landsdóm vegna embættisverka sinna í aðdraganda bankahrunsins. Hann var sýknaður af stærstu ákæruatriðunum en sakfelldur í einum ákærulið.