Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Geir Haarde segist hafa verið blekktur

03.10.2018 - 18:02
Mynd: RÚV / Guðmundur Bergkvist
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, telur sig hafa verið blekktan þegar ákveðið var að Seðlabankinn lánaði Kaupþingi 500 milljóna evra þrautavaralán gegn veði í danska bankanum FIH, daginn sem neyðarlögin voru sett. 

„Já, ég tel það,“ segir Geir í samtali við Kastljósið, en ítarlegur þáttur um bankahrunið verður sýndur í sjónvarpinu í kvöld. Hann segir að veðið í FIH bankanum hafi þótt vera mjög traust veð. Það hafi átt að duga fyrir þessu þrautavaraláni, en líka öðrum skuldum.

„En það var minn skilingur að þetta fjármagn sem átti að fara til Kaupþings ætti að fara í að greiða úr þeim erfiðleikum sem bankinn átti við að stríða gagnvart breska fjármálaeftirlitinu. Hugmyndin var auðvitað sú að þá tækist að bjarga einum bankanum. Og þú getur gert þér í hugarlund að staðan hefði verið allt öðruvísi ef einn banki af þessum þremur stóru hefði lifað þetta allt saman af,“ segir Geir. Hann segir að ef Kaupþing hefði lifað kreppuna 2008, hefði það gjörbreytt stöðunni. Þess vegna hafi lánið verið veitt. „En því miður fór þetta á annan veg og þessir peningar fóru, eftir því sem ég best veit, eitthvað annað en til stóð,“ segir Geir.

Segir landsdómsmálið hafa verið hefnd

Einar Þorsteinsson, annar stjórnenda Kastljóss, spurði Geir líka út í landsdómsmálið. Hann segir rætur þess vera pólitísks eðlis. „Menn voru að reyna að hefna sín á gömlum pólitískum andstæðingi og hans flokki þó svo að málið hafi síðan verið fært í lögfræðilegan búning. En fyrst þetta þurfti að fara svona get ég ekki verið annað en ánægður með það að ég var sýknaður af öllum alvarlegustu atriðunum í þessu máli og öllu því sem rannsóknarnefnd Alþingis hafði í sinni skýrslu talið að ég hefði gerst sekur um vanrækslu gagnvart,“ segir Geir. Það megi því segja að landsdómurinn hafi hreinsað sig sig af því sem fram kom í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Geir segist ekki ætla að erfa landsdómsmálið við nokkur mann. „Það þjónar engum tilgangi að rogast með svona með sér alla leið í gröfina,“ segir Geir.

Á meðal þeirra sem koma í sjónvarpssal í Kastljósinu kvöld eru Gylfi Magnússon, Ólafur Ragnar Grímsson, Katrín Jakobsdóttir ræðir við okkur norðan frá Akureyri, Guðni Th. Jóhannesson, Hallgrímur Helgason, og Stefán Eiríksson, svo fáein nöfn séu nefnd. Þá hefur, auk Geirs, verið rætt við Sigríði Benediktsdóttur sem sat í rannsóknarnefnd Alþingis.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV