Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gefur út sex bækur í mánuði sem allar enda vel

Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason / RÚV/Landinn

Gefur út sex bækur í mánuði sem allar enda vel

08.04.2019 - 11:18

Höfundar

„Ég vissi að það vantaði ástarsögur á íslensku, þær voru bara til á ensku og dönsku og mér fannst það svo ósanngjarnt," segir Rósa Vestfjörð Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ásútgáfunnar, sem hefur gefið út Rauðu seríuna óslitið í 34 ár. Þegar útgáfan hófst áttu Rósa og maðurinn hennar prentsmiðjuna Ásprent á Akureyri og þau vantaði verkefni fyrir nýja prentvél sem búið var að kaupa.

Þá datt Rósu í hug að prenta ástarsögur í vasabroti og núna 34 árum seinna gefur hún enn út sex nýjar ástarsögur í hverjum einasta mánuði. 

„Núna koma út 72 nýir titlar á ári og 72 rafbækur," segir hún en allt í allt hefur Rósa nú gefið út hátt í 2.000 titla. Þær skiptast í flokka eins og sjúkrahússögur, ást og afbrot og örlagasögur.

„En þær enda allar vel. Allar mínar bækur enda vel." Segir Rósa. Hún fær oft að heyra að þetta séu ekki merkilegar bókmenntir en gefur lítið fyrir það. „Það eru menningarvitarnir sem segja það. En þá segi ég: Hvað er menning? Ef hægt er að gefa út sex titla á mánuði í 34 ár, er það þá ekki bara menningin? Er það ekki það sem fólkið vill?"