Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gefa upplýsingar um ferðir strætó í rauntíma

19.08.2019 - 09:17
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Tvö stafræn biðskýli hafa verið sett upp við Kringlumýrarbraut og Faxafen í Reykjavík. Sett verða upp 210 rafvædd skýli í borginni sem birta stafrænar auglýsingar. Í 50 skýlum verður hægt að fá rauntímaupplýsingar um komutíma næstu strætisvagna.

Í fréttatilkynningu frá Dengsa  ehf., sem samið hefur við Reykjavíkurborg um rekstur biðskýla borgarinnar til 15 ára, kemur fram að leggja þurfi rafmagn að nýju skýlunum og því taki um það bil ár að setja þau upp. Nýju skýlin uppfylli kröfur Reykjavíkurborgar um aðgengi fyrir alla. Ljósi LED-skjáa í skýlunum verður stýrt þannig að þeir verði ekki of bjartir á kvöldin. Í tilkynningunni er haft eftir Vésteini Gauta Haukssyni, framkvæmdastjóra Dengsa, að þetta sé umfangsmikið verkefni sem ætlað sé að bæta þjónustu við farþega Strætó verulega.