Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gefa mat í miðbænum

07.04.2015 - 19:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í hverfisversluninni Kjöt og fiski á Bergstaðastræti er matur sem er að komast á síðasta söludag gefinn viðskiptavinum. Eiganda verslunarinnar segist líða betur í sálinni eftir að hann hætti að henda mat.

Pavel Ermolinski kaupmaður segir að miklu hafi verið hent í búðinni og það sé helsta ástæða þess að maturinn fáist gefins. „Í byrjun vorum við mikið að henda svo einn daginn hugsaði ég bara þetta meikar ekki sens, mér leið bara illa með að vera að henda þessu. Þannig að við hentum þessari körfu upp og hún hefur bara slegið í gegn. Við höfum fengið mikið hrós fyrir þetta. Sumir eru hikandi, náttúrlega hafa ekki séð þetta annars staðar, eru smá hikandi og spyrja megum við bara taka þetta. Þarf ég ekki að borga neitt fyrir þetta,“ segir Pavel. 

Viðskiptavinir verslunarinnar eru sumir hikandi en flestum finnst framtakið jákvætt. Í gjafakörfunni þennan daginn voru tveir pelar af rjóma sem voru komnir á síðasta söludag, bananar sem voru aðeins farnir að dökkna og tveir pakkar af salati. 

Pavel segir þörf á vakningu í þessum efnum. „Mér líður betur í sálinni, heldur en þegar ég var að henda þessu í ruslafötuna. Það verður að vera einhver vakning í þessum málum, ef jafnlítil búð og þessi þarf að gera þetta þá get ég ekki ímyndað mér hvað þessar stærri verslanir eru að henda.“

 

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV