Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gefa Landspítala 50 þúsund skammta af malaríulyfi

30.03.2020 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - Rúv
Alvogen ætlar að gefa Landspítala 50 þúsund skammta af malaríulyfinu Hydroxychloroquine, sem sjúklingum með COVID-19 hefur verið gefið, meðal annars á smitsjúkdómadeild Landspítalans og víðar í heiminum.

Robert Wessmann, forstjóri Alvogens, segist telja að lyfið komi til með að verða mjög eftirsóknarvert á næstu vikum, þar sem notkun þess hafi lofað góðu í baráttunni gegn COVID-19. „Chloroquine er það lyf sem er notað einna mest í heiminum gegn COVID-19 og er meðal annars notað í Bandaríkjunum, Frakklandi, Belgíu, S-Kóreu, Indlandi og var mikið notað í baráttunni gegn COVID í Kína,“ segir Robert. Alvogen hafi tekist að fá lyfið frá lyfjaframleiðanda á Indlandi. „50 þúsund pakka, sem á að duga fyrir u.þ.b. 25 þúsund sjúklinga,“ segir Robert. 

Von er á lyfinu til landsins á næstu dögum, en útgöngubann á Indlandi setti óvænt strik í reikninginn. „Við ætlum að afhenda þetta sem gjöf til Íslendinga og munum afhenda Landspítalanum lyfið,“ segir Robert.  

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala, segir að miðað við fyrstu gögn og rannsóknir sé gagn af þessum lyfjum gegn sjúkdómnum og því sé gjöfin vel þegin. Frekari rannsóknir á gagnsemi lyfjanna eru væntanlegar.