Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gefa einföld ráð til að hindra heilabilun

14.05.2019 - 21:43
Mynd með færslu
 Mynd: wikipedia.org
Fólki með heilabilun fjölgar mikið á næstu árum samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Til að stemma stigu við sjúkdómnum hefur hún birt leiðbeiningar til að draga úr hættu á heilabilun. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkar leiðbeiningar eru gefnar út.

Talið er að um 50 milljónir þjáist af heilabilun um heim allan. Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár og óttast er að 152 milljónir glími við sjúkdóminn árið 2050. Enn hefur ekki tekist að finna lækningu við heilabilun en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að nokkur einföld ráð og heilbrigður lífsstíll geti dregið úr hættu á sjúkdómnum. Með því að fylgja ráðleggingunum er talið að fækka megi úr nýjum tilfellum um þriðjung.

Leiðbeiningar stofnunarinnar byggjast á vísindagögnum og segir framkvæmdastjóri hennar, Tedros Adhanom Ghebreyesus, að nauðsynlegt sé að grípa til allra mögulegra ráða til að stemma stigu við sjúkdómnum. „Okkur hefur grunað um þónokkurn tíma að það sem er gott fyrir hjartað sé einnig gott fyrir heilann.“

Meðal þess sem rannsóknir hafa sýnt að auki líkur á heilabilun eru reykingar og óhófleg áfengisneysla. Heilbrigt mataræði hefur fyrirbyggjandi áhrif en að taka vítamíntöflur hjálpar ekki til við að koma í veg fyrir heilabilun.

Helsta ástæða þess að fólk fær heilabilun er hár aldur en þó er ekki óhjákvæmilegt að eldra fólk fái sjúkdóminn. Erfðir hafa líka áhrif á það hvort fólk greinist með hann.

Ráð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eru svohljóðandi:

 1. Hreyfing. Fullorðnir, þ.m.t. eldri borgarar, eiga að leitast við að hreyfa sig í að minnsta 150 mínútur á viku.
 2. Reykleysi.
 3. Hollt mataræði.
 4. Vítamíntöflur gera ekki gagn.
 5. Forðast óhóflega áfengisneyslu.
 6. Heilaþjálfun.
 7. Félagslyndi.
 8. Vera í kjörþyngd.
 9. Forðast of háan blóðþrýsting.
 10. Leita læknisaðstoðar við sykursýki.
 11. Forðast hátt magn kólesteróls.