Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Geðlæknar fást ekki til starfa á Akureyri

29.11.2019 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Skortur er á geðlæknum á sjúkrahúsinu á Akureyri. Erfiðlega gengur að fá afleysingalækna og framkvæmdastjóri hefur áhyggjur af stöðunni. Þetta auki álag á allt starfsfólk.

Við sjúkrahúsið á Akureyri eru fimm stöður geðlækna. Aðeins tveir eru þó fastráðnir hjá sjúkrahúsinu. Annar búsettur á Akureyri, hinn í Reykjavík. Alice Harpa Björgvinsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðsviðs segir að þótt erfiðlega hafi gengið að fá geðlækna til að setjast að á Akureyri þá hafi þeir komið reglulega í afleysingar síðustu ár svo að mönnun hafi gengið ágætlega. Nú sé staðan önnur og verr gangi að fá geðlækna í afleysingar.  

Hún hafi áhyggjur af stöðunni enda auki læknaskortur álag á allt starfsfólk. Spurð að því hvort hún sé hrædd um að missa þá geðlækna sem séu vegna álagsins segist hún alltaf hafa áhyggjur af því að of mikið álag geti fengið menn til að íhuga stöðu sína.

Sjúklingar hitti ekki sama lækninn

Það megi þó ekki gleyma því að sjúkrahúsið hafi fullt af flottu fagfólki.
Hún segir starfið byggt upp af teymisvinnu, það er að segja ekki einni fagstétt,  og reynt sé að styðja eins vel við sjúklinga og hægt er þrátt fyrir stöðuna. Með fáum geðlæknum geti sjúklingar lent í því að hitta ekki sama lækninn, það reyni starfsfólk þó að forðast eins og hægt sé.

„Við erum náttúrulega alltaf með plön til að tryggja að þjónustan gangi upp og við erum búin að gera ráðstafanir fram í tímann með afleysingalæknum,“ segir Alice. Þau séu að leita að geðlæknum og bindi vonir við að þeir finnist. Þetta hafi gengið upp svona síðustu ár og lagt sé upp með að gera það áfram en auðvitað sé það hagur sjúklinga að hafa fullmannað teymi sem býr á Akureyri.

Skapi óvissu hjá sjúklingum

Grófin geðverndarmiðstöð er á Akureyri, þar er Valdís Eyja Pálsdóttir forstöðumaður. Hún segist hafa orðið vör við auknar áhyggjur í haust hjá þeim sem þangað sæki þjónustu. Fólk sé órólegt vegna aðgengis að geðlæknaþjónustu sem sé ekki nógu gott. Þeir geðlæknar sem ferðist á milli endist ekki nema í eitt til þrjú ár, sjúklingar flakki því á milli lækna sem skapi óvissu og áhyggjur.