GDRN heitir Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir og er 23 ára Mosfellingur. Hún lærði á fiðlu frá unga aldri, síðar söng og píanó, en ætlaði sér upphaflega að verða fótboltastjarna frekar en að leggja fyrir sig tónlist.
„Það var draumurinn. Það var ekki fyrr en ég eyðilagði á mér hnén að ég þurfti að snúa mér eitthvað annað og þá var tónlistin í fyrirrúmi. Þegar ég byrjaði að búa til tónlist sjálf henti ég mér út í djúpu laugina. Maður verður að vera svolítið kræfur. Ef mig langaði að vinna með einhverjum fór ég bara upp að honum og sagði: Ég dýrka það sem þú ert að gera, ég er söngkona, mig langar að vinna með þér.“
GDRN vinnur með upptökustjórateyminu ra:tio, sem samanstendur af þeim Bjarka Sigurðarsyni og Teiti Helga Skúlasyni, en þau hafa þekkst síðan í MR.