
Gátu ekki sýnt fram á raunverulega eigendur
Fjármálaeftirlitið hefur síðustu misseri athugað hvernig íslensku viðskiptabankarnir standa að vörnum gegn peningaþvætti og hryðjuverkum. Niðurstöður athugana á þremur bankanna birtust á föstudag en niðurstaða þess fyrsta birtist þegar í maí. Fyrst var fjallað um niðurstöður Fjármálaeftirlitsins í Kjarnanum.
Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við peningaþvættisvarnir allra íslensku bankanna. Enginn bankanna gat sýnt fram á með skjölum að hann hefði uppfyllt lög um að meta með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um raunverulega eigendur viðskiptavina bankanna væru réttar og fullnægjandi.
Fjármálaeftirlitið birti á föstudag niðurstöður sínar vegna Landsbankans, Kviku og Íslandsbanka. Niðurstöður vegna Arion banka voru birtar í maí. Þá kom fram að Arion banki hefði brugðist við athugasemdum Fjármálaeftirlitsins. Í niðurstöðunum um Íslandsbanka kemur fram að bankinn hafi þegar gripið til úrbóta þegar niðurstaða Fjármálaeftirlitsins lá fyrir.
Peningaþvættisvarnir hérlendis komust í hámæli í haust þegar Ísland lenti á gráum lista FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.